Í dag var skrifað undir kaupsamning um Hótel Vestmannaeyjar. Kaupandi hótelsins er M9 ehf., sem er félag í eigu Aðalsteins Jónssonar Þorsteinssonar. Nýr eigandi mun taka við rekstrinum 15. október nk.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu þar sem segir: „Magnús Bragason og Adda Jóhanna Sigurðardóttir, sem hafa rekið hótelið í ellefu ár tóku ákvörðun fyrir nokkru að setja hótelið á sölu af persónulegum ástæðum. Sú ákvörðun leiddi til kaupsamningsins sem var gerður í dag.

Magnús og Adda munu reka hótelið til 15. október nk. og vera nýjum eiganda innan handar í rekstrinum til að byrja með. Við þessi tímamót vilja þau þakka öllum starfsfólki sínu í gegnum tíðina fyrir samfylgdina og öðrum sem hafa stutt við rekstur hótelsins. Þetta hafa verið skemmtileg ellefu ár og reksturinn gengið vel. Þau telja að hótelið sé komið í góðar hendur.

Nýr eigandi mun byggja framtíðina á því góða starfi sem Magnús og Adda hafa gert á liðnum árum. Engar sérstakar breytingar eru fyrirhugaðar á starfseminni, heldur áframhaldandi uppbygging hótelsins sem burðarás í ferðaþjónustu Vestmannaeyja.“