Erlingur Richardsson handboltaþjálfari er flestu Eyjafólki vel kunnur, hann hefur alla tíð verið vel virkur í íþróttahreyfingunni og er í sífelldri leit að betri nálgun á verkefnin sín, hver sem þau eru hverju sinni. Sem dæmi má nefna að þegar Erlingur þjálfaði meistaraflokk kvenna í handbolta ÍBV, þegar blaðamaður var þá enn að æfa íþróttina, innleiddi hann nokkuð nýtt í æfingatöfluna, en það kallaðist þá þrek. Í dag er ekki til það handboltalið á Íslandi sem ekki stundar styrktarþjálfun af einhverju tagi, má því segja að Erlingur hafi verið frumkvöðull á þessu sviði. Einnig, þegar blaðamaður mætti í íþróttatíma í FÍV, þá kynnti Erlingur kennari, nokkuð fyrir nemendum sem var hin fullkomna teygju rútína í lok tíma, en þá þótti alls ekki töff að teygja á eftir æfingar eða fara í jóga.

 

Það sem er kannski athygliverðast við nálgun Erlings við þessi ofangreindu dæmi, er hans einstaka glaðlynda viðhorf, eldmóður og trú á verkefninu, þrátt fyrir mótbárur og vantrú annarra. Og það er eflaust einkum það sem hefur skilað honum í röð bestu handboltaþjálfara í heiminum og gerir hann að þeirri góðu fyrirmynd sem hann er, innan og utan handboltavallarins.

Erlingur er nýbúinn að undirrita nýjan samning við ÍBV og mun þjálfa karlaliðið áfram næstu tvö árin.

Við spurðum hann í leiðinni út í frábæran árangur ungra leikmanna íBV í handbolta sem hafa raðað sér í yngri landsliðin í sumar og náð góðum árangri. En hvorki meira né minna en ellefu leikmenn íBV hafa spilað með yngri landsliðum í sumar, þau eru: Andrés Marel Sigurðsson (U18), Elmar Erlingsson (U18), Hinrik Hugi Heiðarsson (U18), Ívar Bessi Viðarsson (U17), Elísa Elíasdóttir (U18), Sara Dröfn Richardsdóttir (U18), Gauti Gunnarsson (U20), Arnór Viðarsson (U20), Alexandra Ósk Viktorsdóttir (U16), Herdís Eiríksdóttir (U16) og Janus Dam Djurhuus (U20) sem spilaði með færeyska landsliðinu.

Fullt nafn: Erlingur Birgir Richardsson

Fjölskylda: Vigdís Sigurðardóttir markmaður, Sandra Erlingsdóttir miðjumaður, Elmar Erlingsson miðjumaður og Andri Erlingsson skytta og kylfingur:)

Hefur þú alltaf búið í Eyjum: Nei, bjó í Reykjavík og á Laugarvatni á námsárum okkar Vigdísar. Svo hef ég búið í Kópavogi, Austurríki og Þýskalandi í tengslum við handboltaþjálfunina.

Fyrirmynd: Allir þeir Íslendingar sem náðu að byggja þetta land upp, búandi í moldarkofum, í strjálbýlu og erfiðu og hrjóstrugu landi.

Mottó: Hef nú aðallega tileinkað mér eina aðferð í þjálfuninni en hún er sú að til að ná fram góðri frammistöðu frá öðrum þá þarf ég sem þjálfari/kennari að sýna og vera fyrirmynd að þeirri menningu/hegðun sem ætlast er til að sé ráðandi, þ.e að sýna sjálfur þá hegðun sem ég vil að aðrir sýni – „Walk the talk“ eða  „Be what you want to see”.

Síðasta hámhorf eða guilty pleasure: „Better call Saul”.

Áttu annað áhugamál en handbolta: Íþróttafræði er nú kannski það sem ég eyði mestum tíma í samhliða handboltanum.

Uppáhalds app: Bara þessi helstu samskiptaforrit sem almennt er í notkun í dag, t.d smáforritið Messenger er mikið notað.

 

Nánar í Eyjafréttum.