Matvælafyrirtækið Marhólmar ehf. vermir efsta sætið á lista „topp tuttugu“ meðalstórra fyrirtækja á nýbirtum lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki ársins 2022.

Á samanlögðum lista allra 875 framúrskarandi fyrirtækja af öllum stærðum og gerðum á landinu eru Marhólmar í 119. sæti.

Óhætt því að óska Marhólmafólki til hamingju með framúrskarandi árangur! Í tilefni dagsins birtum við mynd af afmæliskökunni frá í fyrra … (hlýtur að vera líka gott með kaffinu í Marhólma í dag).

Marhólmar fögnuðu tíu ára afmæli í febrúar í ár. Frumkvöðlar fyrirtækisins, Halldór Þórarinsson matvælaverkfræðingur og Hilmar Ásgeirsson iðntæknifræðingur, stofnuðu það 9. febrúar 2012, byrjuðu á því að framleiða masago úr gæðahrognum frá Vinnslustöðinni og hófu starfsemi í eigin verksmiðju í mars 2013. Þeir áttu fyrirtækið einir framan af en ráða nú samanlagt 25% á móti 75% eignarhlut Vinnslustöðvarinnar.

Halldór Þórarinsson segir um niðurstöðuna fyrir hönd Marhólma:

„Við Hilmar félagi minn stofnuðum Marhólma með tvær hendur tómar 2012 en höfðum tækni- og vöruþekkingu auk viðskiptasambanda frá fyrri tíð. Það var síðan mikið gæfuspor þegar við hófum formlegt samstarf við Vinnslustöðina árið 2013 og má segja að ekki hafi þar borið skugga á.

Það reyndist okkur einnig mjög happadrjúgt þegar Ragnhildur Þorbjörg Svansdóttir hóf störf hjá okkur sama ár sem verksmiðjustjóri. Ragga hefur haft mikil áhrif á fyrirtækið og skapað vinnustað með góðu starfsfólki sem við erum öll stolt af enda viljum við að hjá okkur sé gott að vinna.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á 10 árum og fyrirtækið þróast mikið. Við erum því mjög stolt af því að Marhólmar séu komnir á þennan stað. Það hvetur okkur til frekari dáða.“

Vinnslustöðin hf. er í 32. sæti af alls 875 fyrirtækjum á heildarlistanum yfir fyrirmyndarfyrirtækin 2022 og Huginn ehf. í 140. sæti.

Önnur fyrirtæki, skrásett í Vestmannaeyjum á heildarlistanum, eru Frár ehf. (304. sæti), Skipalyftan ehf. (307. sæti), Miðstöðin ehf. (488. sæti), Leo Fresh Fish ehf. (586. sæti), Narfi ehf. (637. sæti), Kvika ehf. (682. sæti), Fiskmarkaður Vestmannaeyja /770. sæti).

  • Lykiltölur nokkurra sjávarútvegsfyrirtækja eru birtar í sérriti Morgunblaðsins og Creditinfo um framúrskarandi fyrirtæki. Þar er Vinnslustöðin í þriðja sæti á lista yfir veltu á árinu 2021 með liðlega 20 milljarða króna, efst á blaði er Brim hf. með 60,3 milljarða króna og þar næst er Síldarvinnslan með tæplega 31 milljarð króna.

Í næstu sætum á eftir Vinnslustöðinni koma Eskja hf. (13 milljarðar kr.), Loðnuvinnslan hf. (12,5 milljarðar kr.) Þorbjörn hf. (12,2 milljarðar kr.), Fisk-Seafood ehf. (11,8 milljarðar kr.), Útgerðarfélag Reykjavíkur (11,5 milljarðar kr.), Vísir hf. (10,2 milljarðar kr.) og Rammi hf. (9,9 milljarðar kr.). Þess skal getið að Samherji hf. er ekki á þessum lista í sérritinu.

  • Á „topp tíu-lista“ yfir „ársniðurstöðu eftir landshlutum“ er Vinnslustöðin í efsta sæti á Suðurlandi og sömuleiðis í langefsta sæti á Suðurlandi á lista yfir skattgreiðslur (tekjuskattar og eignaskattar).

Hvað gerir fyrirtæki framúrskarandi hjá Creditinfo?

Framúrskarandi fyrirtæki eiga það sameiginlegt að vera stöðug og reisa reksturinn á sterkum stoðum og efla allra hag.

Framúrskarandi fyrirtæki þarf að uppfylla ströng skilyrði:

  • Vera í lánshæfisflokki 1-3.
  • Ársreikningi skal skilað á réttum tíma lögum samkvæmt.
  • Ársreikningi hafi verið skilað til RSK síðustu þrjú ár.
  • Fyrirtækið er virkt samkvæmt skilgreiningu Creditinfo.
  • Rekstrartekjur að lágmarki 50 milljónir króna síðustu þrjú ár.
  • Fyrirtæki með rekstrartekjur yfir 10 milljarða króna þurfa að fylla út spurningalista um sjálfbærni.
  • Framkvæmdastjóri skráður í fyrirtækjaskrá RSK.
  • Rekstrarhagnaður (EBIT) jákvæður síðustu þrjú ár.
  • Ársniðurstaða jákvæð síðustu þrjú ár.
  • Eiginfjárhlutfall a.m.k. 20% síðustu þrjú ár.
  • Eignir a.m.k. 100 milljónir króna síðustu þrjú ár.

Af heimasíðu Vinnslustöðvarinnar – vsv.is