Sjópróf vegna skemmda á vatnsleiðslu til Vestmannaeyja hófust í Vestmannaeyjum í morgun. Miklar skemmdir urðu á 50 metra kafla á leiðslunni þegar Huginn VE festi akkeri í henni í nóvember.

Frá þessu er greint á RÚV.is. Þar segir að sjópróf séu haldin fyrir héraðsdómi og geta ýmsir krafist þeirra. Til dæmis rannsóknanefnd samgönguslysa, eigandi skips, lögreglustjóri eða stéttarfélög sjómanna. Tilgangurinn með sjóprófi er að reyna að leiða í ljós orsakir atburðar og þær staðreyndir sem skipta máli. Ef tjón hlýst af siglingu skips getur sá sem fyrir tjóni verður óskað eftir sjóprófi.