Jólahlaðborðið vinsælt

Ólafur Björgvin Jóhannesson verslunarstjóri hjá Krónunni var önnum kafinn þegar við náðum í hann. „Þetta er sá árstími sem það er sem mest að gera hjá okkur og verslunin komin í hátíðargír núna í kringum fyrsta í aðventu. Við höfum sett upp okkar vinsæla og glæsilega jólahlaðborð sem fólk getur haft heima hjá sér fyrir sanngjarnt verð. Ég er að fara upplifa mín fyrstu jól sem verslunarstjóri án covid áhrifa. Það gæti orðið öðruvísi áhersla hjá okkar viðskiptavinum í aðdraganda jólanna og yfir hátíðirnar sjálfar vegna þess. En annars er þetta yfirleitt það sama sem fólk sækist í hjá okkur og hlökkum við að taka móti viðskiptavinunum og þjónusta þá.

Óli er ekki í vafa hver er vinsælasti jólamaturinn hjá Eyjamönnum. „Það er án efa Krónu svína hambogar hryggurinn. En svo er léttreykti lambahryggurinn alltaf mjög vinsæll ásamt hangikjötinu. Svo er að koma sterkt inn að fólk sækist meira og meira í léttari veislumat, þar kemur sterkur inn kalkúnn sem er til í nokkrum útfærslum hjá okkur. Áramótamaturinn er mjög breytilegur milli ára en við munum eiga frábært úrval fyrir alla.“

Þegar talið barst að jólagjöfum kennir ýmissa grasa í Krónunni. „Hjá okkur er mjög vinsælt að gefa gjafakort í Krónuna í jólagjöf, ostakörfur frá MS, snyrtivörur og svo bjóðum við upp á margar glæsilegar vörur sem eru flottar í gjafakörfur fyrir sælkerann og sem dæmi hafa vörurnar frá Olifa verið að slá í gegn. Svo fer að koma sá tími þegar Jólasveinarnir koma við hjá okkur og grípa ýmislegt í skóinn en við erum með sérstakan hóhóhó enda fyrir þá,“ sagði Óli í jólagír að lokum.

Meira í Eyjafréttum