Hið árlega Orkumót í knattspyrnu drengja í 6. flokki fór fram nú á dögum í fertugasta skiptið og lauk í gær þar sem lið Stjörnunnar og KR léku til úrslita á Hásteinsvelli.

„Það var Stjarnan sem sigraði Orkumótið í ár. Þeir mættu KR-ingum í jöfnum og mjög spennandi leik þar sem að Stjörnumenn komust yfir í blábyrjun, KR-ingar létu það þó ekki slá sig út af laginu, heldur unnu sig hægt og rólega inn í leikinn og jöfnuðu með þrumuskoti Ólafs Hrafns Johnson utan af velli. Staðan var 1-1 að loknum venjulegum leiktíma og því var framlengt um 2 sinnum 5 mínútur, það var svona farið að stefna í vítaspyrnukeppni en Stjörnumenn ætluðu sér ekki þangað og kláruðu leikinn með 2 mörkum á lokakafla seinni hluta framlengingar. Mörk Stjörnunnar í leiknum gerðu þeir Róbert Páll Veigarsson, Baldur Ari Baldursson og Jason Valur Guðjónsson” segir í færslu á vefsíðu Orkumótsins.

Upptöku af úrslitaleiknum má sjá hér.