Á fundi fræðsluráðs í vikunni sem leið lögðu fulltrúar meirihluta til að heimgreiðslur hækki úr 110.000 krónum og verði allt að 220.000 á mánuði við upphaf næsta fjárhagsárs og út árið 2024 en verði enduskoðaðar að þeim tíma liðnum. Fræðsluráð óskar eftir því að reglur um heimgreiðslur komi inn á næsta fund þar sem þær verði endurskoðaðar með tilliti til hækkunarinnar og útfærslna.

Tillagan var samþykkt með þremur atkvæðum fulltrúa E og H lista gegn tveimur atkvæðum fulltrúa D lista.

Draga úr atvinnuþátttöku kvenna
Fulltrúar D lista sendu frá sér eftirfarandi bókun:

Undirrituð geta ekki samþykkt hækkun heimgreiðslna um 100% m.a. af eftirtöldum ástæðum

A) Bæjarráð bókaði fyrir 3 vikum um nauðsyn aðhaldsaðgerða í öllum málaflokkum sveitarfélagsins. Fræðslumálin eru stærsti, kostnaðarsamasti og mikilvægasti málaflokkurinn. Með þessu viðbótarskrefi við fjölgun leikskólaplássa er í heild verið í þessum eina dagskrárlið að auka útgjöld ráðsins um ríflega hundrað milljónir á næsta fjárhagsári.
B) Ávinningur aðgerðarinnar er óljós og huglægur enda engar tölulegar staðreyndir eða kannanir sem sýna fram á áhrif hennar og því ákveðin tilraunastarfsemi með skattfé sveitarfélagsins.
C) Heimgreiðslur voru á sínum teknar upp sem neyðarúrræði við skorti á leikskólaplássum, sama staða er ekki uppi í dag, verið er að bregðast við þörfinni með fjölgun leikskólarýma og því þörf fyrir aðgerðina takmarkaðri.
D) Meðalhóf væri að hækka heimgreiðslurnar í smærri þrepum líkt og fulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa minnst á en að hækka greiðsluna svo bratt í einu skrefi. Upphæð heimgreiðslna yrði við þessa breytingu rúmlega tvöföld það sem hún er í öðrum stærri sveitarfélögum.
E) BSRB stærstu heildarsamtök launafólks á opinberum markaði eru andvíg upptöku heimgreiðslna og gáfu í nýlegri grein ýmsar ástæður fyrir því en sú stærsta var að nánast öruggt er að heimgreiðslur myndu draga úr atvinnuþátttöku kvenna og hafa neikvæð áhrif á jafnrétti á vinnumarkaði. https://www.bsrb.is/is/frettakerfi/heimgreidslur

Tímabundin aðgerð
Fulltrúar E og H lista söruðu með bókun:

Hækkun heimgreiðslna er aðgerð til þess að tryggja einhver úrræði hjá foreldrum að loknu fæðingarorlofi. Erfitt verður að mæta aukinni þörf á næsta ári fyrir leikskólapláss og liggur fyrir að það þurfi að fara fjölbreyttar leiðir. Hækkun heimgreiðslna tímabundið í eitt ár er liður í að koma til móts við foreldra og leið til að kanna hvort þær stuðli að ákveðnu jafnvægi þegar kemur að eftirspurn eftir leikskólaplássum. Það er fjárhagslega hagkvæmt að fara blandaða leið, þ.e. með heimgreiðslum og fjölgun leikskólaplássa.
Því er verið að fara eftir því sem kom fram í bæjarráði fyrr í mánuðinum en jafnframt verið að huga að því hlutverki að veita sem besta þjónustu.

Ráðið felur framkvæmdastjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs að fylgja málinu eftir til bæjarráðs og við vinnu fjárhagsáætlunar ársins 2024.