Fræðsluráð Vestmannaeyjabæjar tók fyrir, á fundi sínum á mánudag, tillögur skólaskrifstofur Vestmannaeyja að endurskoðaðri gjaldtöku á leikskóla og innritunar- og innheimtureglum en tillögurnar voru unnar að ósk ráðsins frá 374. og 376. fundum ráðsins.

Eftirfarandi tillögur voru lagðar fram:
1. Gjaldtaka hjá yngsta aldurshópi leikskólanna, þ.e. 12-18 mánaða, verði hækkuð um næstu áramót þannig að grunngjaldið hækki úr kr. 3.396 í kr. 5.653. Kostnaður þessa aldurshóps er mun dýrari en annara aldurshópa. Með breytingunni mun kostnaðarhlutur foreldra verða um 11,3%.
2. Gjaldtaka frá 18 mánaða og þar til skólaganga í Víkinni hefst haldist óbreytt að sinni.
3. Fyrstu sjö tímarnir verði áfram gjaldfrjálsir í Víkinni en 8. tíminn hækki úr kr. 5.513 í kr. 18.458 um næstu áramót og 9. tíminn í kr. 27.678. Kostnaður við þennan aldurshóp í leikskólum m.v. 8 tíma er skv. útreikningum sem birtust í minnisblaði á 374. fundi fræðsluráðs kr. 200.000 og myndu foreldrar þá greiða um 9,2% af heildarkostnaði við 8. tímann og 12,3% fyrir 9. tímann. Tilgangur með hækkun er að meta hvort vistunartími barnanna styttist en það var eitt af markmiðum með 7 tíma gjaldfrjálsri vistun en hefur ekki raungerst miðað við stöðuna í dag.
4. Farið verði í heildarendurskoðun á gjaldtöku allra aldurshópa nema þess yngsta fyrir haustið 2024
5. Afsláttur 40% verði ekki bundinn við einstæða foreldra og námsmenn frá næstu áramótum heldur verði hann tekjutengdur. Hægt verði að sækja um 40% afslátt af vistunargjaldi ef meðalheildartekjur heimilis sl. þriggja mánaða skv. staðgreiðsluskrá eru allt að kr. 830.000. Viðmið um heildarmeðaltekjur hækka skv. vísitölu um áramót.
Athygli er vakin á því að í ofangreindum tillögum er ekki búið að setja inn hækkun á gjaldskrá sem kemur til um áramótin á allar gjaldskrár sveitarfélagsins sem er 4,5%

Skólaskrifstofan leggur einnig til eftirfarandi er varðar breytingar á innritunar- og innheimtureglum:
1. Foreldrar/forráðamenn endurnýi afslátt fyrir 15. ágúst ár hvert.
2. Systkinaafsláttur verði bundinn við það að börn séu skráð á sömu kennitölu forráðamanns og með sameiginlegt lögheimili.
3. Börn verði áfram tekin inn á leikskólana eftir kennitölu en eigi barn systkini á leikskóla geti barn haft forgang inn á þann leikskóla.
4. Gerð verði breyting á grein 1.4. þess efnis að börn sem bíða eftir flutningi á annan leikskóla geti fengið flutning þegar inntökutímabilin standa yfir, þ.e. um áramót og að hausti.
5. Gerð verði breyting á grein 4.3. og þar tiltekið að ekki sé hægt að fá tvöfaldan afslátt, þ.e. tekjutengdan afslátt og systkinaafslátt.
6. Grein 4.3.3. verði uppfærð m.v. ákvörðun sem tekin var varðandi heimgreiðslur.

Borga fæði eins og aðrir
Fulltrúar D listans lögðu fram eftirfarandi tillögu “Undirritaðar leggja til að gjöld vegna fæðis verði tekin aftur upp við Víkina. Augljóst er að kostnaður vegna leikskólamála hefur vaxið og mun áfram halda að vaxa verulega með frekari fjölgun leikskólaplássa. Eðlilegt hlýtur að þykja að foreldrar greiði fyrir mat barna sinna á Víkinni líkt og foreldrar gera á Sóla, Kirkjugerði og við Grunnskóla Vestmannaeyja.”

Hluti af endurskoðun
Fulltrúar E og H lista lögðu þá fram eftirfarandi breytingartillögu. “Meirihluti E og H lista leggur til að tillagu D listans verði vísað inní vinnuna við heildarendurskoðun á leikskólagjöldum allra aldurshópa nema þess yngsta fyrir haustið 2024.”

Breytingartillaga E og H listans samþykkt með þremur atkvæðum. Fulltrúar D listans sitja hjá.

Ráðið samþykkir samhljóða að öðru leiti meðfylgjandi breytingar á gjaldskrá leikskóla og á innheimtu- og innritunarreglum.

Því fylgdi bókun frá fulltrúum D listans “Undirritaðar samþykkja gjaldskránna en vekja athygli á því að á síðasta ári var 7 klst. vistun við Víkina gerð gjaldfrjáls og ákvað meirihluti fræðsluráðs ennfremur að fella út fæðisgjöld á Víkinni en sú ákvörðun kostar sveitarfélagið um 5 milljónir árlega. Nú er kostnaður foreldra við 8. dvalartímann á Víkinni hækkaður um 235% og 9. tímann um 402%.”

Málinu lauk svo með bókun E og H listans: “Meirihluti E og H lista hugnast ekki að gera fleiri breytingar á gjaldskrá 5 ára deilar að sinni. Meta þarf áhrif hækkunar á gjaldskrá og hvort vistunartími styttist en það er eitt af markmiðum með 7 tíma gjaldfrjálsri vistun en hefur ekki raungerst. Erfitt getur verið að meta áhrifin ef fæðisgjald verður tekið upp að nýju.”