Forseti Íslands, Hr. Guðni Th. Jóhannesson, heimsótti Vestmannaeyjar sl. þriðjudag. Hann kom víða við í heimsókn sinni, ásamt Írisi Róbertsdóttur bæjarstjóra, sem tók á móti honum.

Fyrst lá leiðin í grunnskólann og í framhaldi á Kirkjugerði og Sóla þar sem forsetinn skoðaði skólana og heilsaði upp á nemendur og starfsfólk. Nemendur í 5. bekk sýndu honum verkefni sem þeir voru að vinna um alla forseta lýðveldisins og þá tók hann þátt í stærðfræðileik með 10. bekk. Nemendur á Kópvík í Kirkjugerði sungu fyrir forsetann lag um vináttu og þá var honum boðin þátttaka í söngfundi á Sóla.

Eftir heimsóknir í skólana lá leiðin í Heimaey þar sem vel var tekið á móti forseta og bæjarstjóra. Forsetinn fékk kynningu á starfseminni og var hann svo leystur út með kertagjöfum, m.a. fallegu Íslandskerti.

Frá Heimaey var farið í Laxey þar sem Hallgrímur Steinsson og Óskar Jósúason kynntu starfsemina og að endingu fór forsetinn á Hraunbúðir og horfði á landsleik Íslands og Ungverjalands með heimilisfólkinu.

Meðfylgjandi mynd er fengin af vef Vestmannaeyjabæjar þar má sjá Guðna Th. Jóhannesson og Freyju á Nýlendu spennt yfir handboltaleiknum.