Vestmannaeyjabær hefur valið Einar Gunnarsson í stöðu skólastjóra Barnaskóla Vestmannaeyja. Tveir umsækjendur voru um stöðuna en annar dró umsókn sína til baka, segir í tilkynningu frá Vestmannaeyjabæ.

Einar Gunnarsson.

Einar lauk B.Ed. gráðu í grunnskólakennarafræðum með áherslu á stærðfræði og landafræði árið 2002 frá Kennaraháskóla Íslands og þar með leyfisbréfi sem grunnskólakennari. Hann hefur auk þess lokið námskeiðum á framhaldsstigi við Háskóla Íslands og Háskólann á Bifröst um hlutverk millistjórnenda og vellíðan í vinnu. Einar hefur menntun og reynslu sem nýtist í starfinu, þar með talið farsæla stjórnunarreynslu. Hann býr yfir staðgóðri þekkingu á skólamálum í Vestmannaeyjum, þ.m.t. verkefninu Kveikjum neistann sem hann hefur verið þátttakandi í frá upphafi, auk þekkingar á uppeldis- og uppbyggingarstefnunni Uppeldi til ábyrgðar og færni og reynslu í starfsmannastjórnun og stefnumótun. Einar hefur í störfum sínum sýnt fram á mikla hæfni í samskiptum og metnað til árangurs í skólastarfi auk brennandi áhuga á fræðslu- og uppeldismálum. Áralöng reynsla hans af kennslu og ýmsum umbótaverkefnum í skólastarfi kemur til með að nýtast í starfi.

Frá og með næsta skólaári verður Grunnskóla Vestmannaeyja skipt upp. Þótt slík breyting virki sem stór ákvörðun munu nemendur og foreldrar lítið finna fyrir henni. Sömu skólarnir verða starfandi, Hamarsskóli og Barnaskóli Vestmannayja, með sömu aldursskiptingu og er í dag. Í Hamarsskóla verður sem fyrr 1. – 4. bekkur ásamt frístund (lengd viðvera eftir skóla) og Víkin, 5 ára deild. Í Barnaskóla Vestmannaeyja verður 5. – 10. bekkur. Hvor skólinn fyrir sig mun hafa skólastjóra sem vinna náið með deildarstjóra færðslu- og uppeldismála og Fræðsluráði Vestmannaeyja að sama metnaði í skólamálum og áður. Anna Rós Hallgrímsdóttir núverandi skólastjóri GRV mun taka við skólastjórn Hamarsskóla.