Stjórn Landssambands strandveiðimanna skorar á matvælaráðherra að endurskoða ákvörðun sína um stöðvun strandveiða. Strandveiðimenn ætla að mótmæla í miðbæ Reykjavíkur á laugardag.

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra tilkynnti 6. júlí að ekki væri svigrúm til að bæta við veiðiheimildum til strandveiða eins og Landssamband smábátaeigenda fór fram á. Það þýðir að rúmlega sjö hundruð bátar hafa þurft að hætta veiðum, þegar tímabilið er rétt rúmlega hálfnað. Sambandið hefur áætlað að um þúsund manns hafi atvinnu af strandveiðum og að stöðvun þeirra eigi eftir að snerta þrisvar sinnum fleiri. Ráðherra sagði að öllum veiðiheimildum fyrir yfirstandandi fiskveiðiár hefði þegar verið ráðstafað, þar með talið heimildum til strandveiða. Ráðuneytið hefði ekki lagaheimild til að fallast á beiðni LS um að bæta við heimildum.

Strandveiðifélag Íslands hefur boðað til mótmæla í miðbæ Reykjavíkur næsta laugardag klukkan tólf á hádegi vegna stöðvunar veiðanna. „Við erum í rauninni bara að mótmæla þessari ótímabæru stöðvun strandveiða annað árið í röð. Og viljum í rauninni fá einhverjar viðbætur núna en líka að kerfið verði lagað, svo að þetta gerist ekki ár eftir ár,“ segir Kjartan Páll Sveinsson, formaður Strandveiðifélags Íslands í samtali við RÚV.