„Ég og Smári McCarthy áttum frumkvæði að stofnun á fyrstu Fab Lab smiðjunni á Íslandi hér í Vestmannaeyjum árið 2008. Þá var ég starfsmaður Vestmannaeyjabæjar og við sóttum um styrk til ríkisstjórnarinnar vegna niðurskurðar í þorskkvóta á sínum tíma og en ég hafði samband við Þorstein Inga Sigfússon heitinn sem var fljótur að kveikja á gagnseminni og varð spenntur fyrir hugmyndinni. Þorsteinn Ingi var mikill Eyjamaður og forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Stuttu seinna var ákveðið að Nýsköpunarmiðstöð Íslands héldi utan um starfsemina hér í Eyjum sem var ein af 38 fyrstu smiðjunum í heiminum. Núna eru þær orðnar yfir 2600 og alla tíð höfum við verið virk í alþjóðlegu samstarfi. Það er gaman að segja frá því að forseti forseti Fab Foundation, Sherry Lassiter, kom í heimsókn til okkar í Eyjum í upphafi þessa mánaðar, “ segir Frosti Gíslason, frumkvöðull og verkefnastjóri Fab Lab smiðjuna í Vestmannaeyjum um upphafið. 

Fab Foundation er alþjóðlegt net þekkingasmiðja út um allan heim. „Fyrstu árin vorum við tveir starfsmenn í smiðjunni en núna er ég einn starfsmaður. Var hjá Nýsköpunarmiðstöð en eftir að hún var lögð niður var ákveðið að smiðjan færi undir Þekkingarsetur Vestmannaeyjum þar sem við erum til húsa í dag. Samningurinn rennur út um áramótin og veit ég ekki hvað þá tekur við,“ segir Frosti og bætir við. 

„Það eru þrettán smiðjur hér á landi og höfum við leitt samstarf smiðjanna hér á Íslandi. Við hittumst vikulega á netinu og  einu sinni á ári erum við með það sem við köllum þekkingarbúðir og vinnum auk þess saman að ýmsum verkefnum. Hér á landi vinnum með framhaldsskólum og grunnskólum og háskólunum. Aðstoðum fyrirtæki og frumkvöðla að þróa sína vörur. Við erum líka í alþjóðlegum verkefnum, m.a. evrópuverkefninu Dreifð hönnun, Distributed design. Hún gengur út að það þú getur hannað vöru hvar sem er og framleitt hvar sem er. Hugmyndafræðin gengur út á að í stað þess að senda vörur á milli staða eru sendar upplýsingar. Þú færð uppskriftina senda og framleiðir þar sem best hentar og úr hráefni á staðnum.“ 

Frosti tók sem dæmi teikningu frá IKEA af Billy bókaskáp sem hver og einn getur aðlagað að sínum þörfum og fengið næsta tölvustýrða verkstæði til að smíða með aðlögun að þörfum notanda. „Framleitt á staðnum. Í þessu verkefni erum við að vinna með hönnunarháskóla á Ítalíu. Arkitektaháskóla í Barselóna, háskóla í Lissabon og smiðjum í Berlín og fleiri stórborgum,“ segir Frosti. 

Hann nefnir líka samstarf við MIT Tækniháskólann í Cambridge í Massachusetts í Bandaríkjunum sem stendur á gömlum merg. „Fab foundation varð til í MIT og forsetinn, Sherry Lassiter er starfsmaður skólans og alþjóðanetsins. Hún hefur áður heimsótt okkur og þá fórum við í ferð um landið. 

Við fáum oft heimsóknir erlendis frá og nú nýlega voru fulltrúar frá Polimi, Politecnico de Milano, virtum hönnunarháskóla, prófessor og kennari í hönnunardeild skólans þar sem við vorum að fara yfir samtarfsverkefni á sviði dreifðrar hönnunar og  þá ræddum við sjávarsamfélagið Vestmannaeyjar, MATEY, og samstarfsmöguleika og þátttöku í Evrópuverkefnum. 

Fab Lab smiðjan er í boði fyrir almenning, fyrirtæki og frumkvöðla og stendur nemendum Framhaldsskólans og Grunnskólans til boða. 

„Við erum í góðu samstarfi við Grunnskólann. Sjöundu bekkingar koma til okkar í lotur og nemendur í áttunda til  tíunda bekk eru í valáföngum. Krakkar í Framhaldsskólanum koma einnig til okkar og vinna að ýmsum þróunar- og nýsköpunarverkefnum og námsverkefnum,“ segir Frosti og þetta skilar árangri. 

„Margir nemendur sem hafa verið hjá okkur hafa farið í verknám og gaman að segja frá því að mikil aukning hefur orðið í verknám í Vestmannaeyjum. Við eigum líka krakka sem hafa farið hugbúnaðarverkfræði, heilsuverkfræði og tölvuleikjagerð. Aðrir eru að stjórna tölvu- og hugbúnaði í fyrirtækjum. Hjá okkur eru þau að vinna í verkefnum og læra og kynnast rafeindabúnaði og þegar komið er út í nám og starf eru þau að gera sömu hluti og hjá okkur. Hérna fá þau grunninn,“ segir Frosti og grípur geislasverð sem einn nemandi gerði.  „Það skiptir litum eftir því hvernig því er snúið og nú er sá sem gerði þetta á sínum tíma  að vinna með sambærilegan búnað við þróun gerviliða hjá Össuri.“ 

Frosti er eins og áður segir eini starfsmaðurinn en Jónatan Jónsson, kennari við Grunnskólann kemur að kennslunni hjá Fab Lab smiðjunni. „Það er mjög gott og ánægjulegt samstarf og farsælt. Við höfum verið með kennslu fyrir skólann alveg frá byrjun, allar annir. Sama var með Framhaldsskólann alveg þangað til þau ákváðu að hætta því.“ 

Fyrst var Fab Lab smiðjan að Bárustíg 1, var nokkur ár við Tvistinn, þar sem nú er Eyjabakarí, í nokkur ár  í Framhaldsskólanum en er nú flutt í Þekkingarsetrið sem er samfélag vísinda, rannsókna, nýsköpunar og fyrirtækja. „Hér eru margir að gera geggjaða hluti eins og Háskóli Íslands. Það sem þau eru að gera í hvalarannsóknum er alveg ótrúlega spennandi. Sama gildir um Náttúrustofu Suðurlands og Sea Life. Fólkið þar er að gera alveg magnaða hluti. Hér er fólk með mikla þekkingu sem vinnur saman og deilir þekkingu sem gefa mikil tækifæri,“ segir Frosti sem líka kemur að margskonar samfélagsverkefnum. 

„Matarhátíðin, Matey sem verður haldin í annað sinn í ár er hluti af stærra verkefni sem ég kalla sjávarsamfélagið. Við höfum líka verið í samstarfi í gegnum NORA, norrænt samstarf Íslands, Færeyja, Grænlands og Noregs sem er ætlað að styðja við sjávartengd verkefni. Við höfum líka unnið að fleiri samfélagslegum þróunarverkefnum eins í og Sjávarsamfélagið en nefna má bátabekkina sem við hönnuðum og eru í líki Vestmannaeyjabátanna gömlu og er verið að koma fyrir. Líka skárum við út vitana á ruslatunnur sem er meðal verkefna sem við höfum komið að,“ sagði Frosti.    

Greinina má einnig lesa í 18. tbl Eyjafrétta.