Eins og greint hefur verið frá hefur lífeyrisþegi á áttræðisaldri sent Vestmannaeyjabæ kröfubréf þar sem farið er fram á afsökunarbeiðni og greiðslu 3 milljóna króna miskabóta. Krafan er vegna ítekraðrar lítillækkandi og meiðandi framkomu starfsfólks Vestmannaeyjabæjar í garð viðkomandi og mismunun á grundvelli húðlitar og trúarbragða.

„Ég get ekki tjáð mig um einstaka mál en ég hafna því algjörlega að starfsfólk sveitarfélagsins sé að mismuna fólki eins og þarna er haldið fram,“ segir Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri Vestmannaeyja í samtali við Vísi. Hún vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið.

Í bréfinu eru raktar þrjár ástæður fyrir kröfunni en fram kemur að um sé að ræða ítrekuð og endurtekin atvik sem geti ekki, sé horft á hlutina í samhengi, verið tilviljun eða mistök af hálfu starfsmanna Vestmannaeyjabæjar. Í kröfunni er því haldið fram að ítrekað hafi verið gengið fram hjá konunni við úthlutun félagslegra íbúða og að henni hafi ítrekað verið sendur matur sem innihaldi svínakjöt þrátt fyrir ábendingar þess efnis að hún borði ekki slíkt vegna trúar sinnar. Og í þriðja lagi hafi starfsfólk sveitarfélagsins í tvígang tekið upp á því að flytja konuna hreppaflutningum til Reykjavíkur án nokkurrar sýnilegrar ástæðu eða lagaheimildar og í því felist ólögmæt meingerð sem sé skaðabótaskyld.