Staða safnstjóra Sagnheima, byggða- og náttúrugripasafns var auglýst laus til umsóknar 16. nóvember 2023 og var umsóknarfrestur til 30. nóvember sl. Samkvæmt auglýsingunni annast safnstjóri daglegan rekstur Sagnheima ásamt því að vera staðgengill forstöðumanns Safnahúss. Safnstjóri hefur með höndum yfirumsjón með munavörslu, skráningu og úrvinnslu safnmuna ásamt kynningu, m.a móttöku gesta, umsjón með safnkennslu og samstarfi við skólasamfélagið. Jafnframt tekur safnstjóri þátt í að skipuleggja og bjóða upp á fjölbreyttar menningartengdar dagskrár og hvers kyns aðra viðburði í Safnahúsinu sem miðla þeirri ríkulegu menningu sem söfnin í heild varðveita.
Alls sóttu tveir einstaklingar um starfið; tvær konur.
Við mat á umsóknum var fyrst og fremst horft til menntunar- og hæfniskrafna sem fram komu í auglýsingunni, en jafnframt metnir aðrir þættir sem nýst gætu í starfi safnstjóra, svo sem sérstök reynsla eða þekking. Stuðst var við fyrirfram útbúið skema við mat á umsóknum til þess að veita einkunnir fyrir ólíka hæfnisþætti, m.a. menntun, starfsreynslu, sérstaka þekkingu sem nýst gæti í starfi, niðurstöður úr starfsviðtölum, umsögnum og annað sem gæti nýst við starfið og fyrir vinnustaðinn.
Eftir mat á umsóknum, viðtöl við umsækjendur og umsagnir þeirra sem leitað var til ákvað Vestmannaeyjabær að ráða Gígju Óskarsdóttur í starf safnstjóra í Safnahúsi. Gígja er 32 ára að aldri og er fædd og búsett í Vestmannaeyjum. Eiginmaður Gígju er Leifur Jóhannesson, löndunarstjóri hjá Hafnareyri og eiga þau tvö börn. Gígja úskrifaðist með B.A. gráðu í Þjóðfræði frá Háskóla Íslands árið 2014 og fjallaði lokaritgerð hennar um sögu lundaveiða í Vestmannaeyjum. Á árunum 2015-2021 var Gígja starfsmaður í Sagnheimum og Sæheimum, á þeim tíma sem söfnun voru rekin af Þekkingarsetri Vestmannaeyja og sá m.a. um skráningu og skipulagningu varðveisluhúsnæðis Sagnheima, öflun styrkja og eftirfylgd fyrir Sagnheima og Sæheima og pysjueftirlitið fyrir Sæheima. Síðustu ár hefur hún unnið við afgreiðslu í Eldheimum og við ræstingar á Herjólfi. Gígja hefur því víðtæka reynslu af safnamálum sem mun nýtast henni vel í starfi safnstjóra.
Það er mat Vestmannaeyjabæjar að þekking og reynsla Gígju falli einkar vel að þeim verkefnum og hæfnisþáttum sem tilgreindir voru í starfsauglýsingunni.
Gígja mun hefja störf 1. janúar nk.