Greint var frá því í fréttum í lok nóvember að íslensk stjórnvöld eiga í viðræðum við bandarískt frumkvöðlafyrirtæki á sviði kyndilborunar um að bora jarðgöng mun ódýrar og hraðar en áður hefur þekkst. Fyrirtækið býðst til að byrja á því að bora lagnagöng til Vestmannaeyja á næsta ári á eigin ábyrgð. Þetta kom meðal annars fram í frétt á vefnum visir.is.

Aðferðin að nota ofurheitan plasma-ljósboga er þekkt úr málmiðnaði en er sögð geta valdið byltingu í jarðgangnagerð. „Við getum verið allt að hundrað sinnum fljótari en við hefðbundna gangagerð og allt frá 20 til 90 prósent ódýrari en við hefðbundna gangagerð því það er aðallega bara rafmagnið,” segir Troy Helming, stofnandi og forstjóri Earthgrid í Kaliforníu.

Undirrituð var viljayfirlýsing við íslenskan umboðsmann Earthgrid, Björgmund Guðmundsson, í Vestmannaeyjum í júnílok. Forstjóri Earthgrid segir þrjár fyrstu borvélarnar verða tilbúnar á næsta ári og vonast til þess að Íslendingar ríði á vaðið í Evrópu með lagnagöngum til Eyja.

Frá undirritun viljayfirlýsingarinnar í Vestmannaeyjum. Frá vinstri: Björgmundur Örn Guðmundsson fulltrúi EarthGrid, Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, og Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Þessar fréttir vöktu óneitanlega athygli í Vestmannaeyjum og hljóma fljótt á litið eiginlega of vel til að eiga sér stoð í raunveruleikanum. Undir það tekur Björn Sigþór Skúlason byggingartæknifræðingur. Björn sem búsettur er í Vestmannaeyjum hefur starfað í yfir 10 ár við jarðgangagerð á Grænlandi, Íslandi, Noregi og nú síðast í Færeyjum. Hann segir hugmyndir fyrirtækisins EarthGrid um möguleika á notkun svokallaðrar kyndilborunar, eða plasma-borunar, við gerð jarðganga milli lands og Eyja vera stórhuga. „Þetta eru hugmyndir sem eru fallegar á blaði. Ég tel afar hæpið að þessi tækni henti við gerð neðansjávarganga, sérstaklega á svæðum þar sem von er á misjöfnum berggæðum. Því miður er engin von um að þessi tækni geti gengið í núverandi mynd og afkastahugmyndir þessara manna eiga enga stoð í raunveruleikanum.“

Björn segist ekki vita til þess að þessar aðferðir hafi verið prófað við einhverjar svipaðar aðstæður og milli lands og Eyja. „Eftir því sem að ég best veit er tæknin á frumstigi prófana og hefur aldrei verið prófuð við einhverjar aðstæður sem svipa til þeirra sem eru hér. Ef það tekst að þróa tæknina þannig að hægt verði að nota hana með arðsömum hætti væri alveg möguleiki að við ættum eftir að sjá þessu beitt á Íslandi í framtíðinni. En ég er efins um að það takist í bráð.“

Aðspurður er Björn ekki í vafa um það hvað hann vilji sjá sem næstu skref í átt að jarðgöngum milli lands og Eyja. „Það er að nauðsynlegar rannsóknir verði kláraðar þannig að það sé hægt að taka upplýsta ákvörðun um gerð jarðganga milli lands og eyja.“