Kap II VE-7 aflaði mest allra netabáta landsmanna á árinu 2023 og munaði umtalsverðu á Kap og Bárði SH-81 sem var næstaflahæstur netabáta. 

Á árinu 2022 var Bárður aflahæstur netabáta en Kap II kom þar á eftir en á nýliðnu ári höfðu bátarnir sem sagt sætaskipti. Í næstu þremur sætum eru sömu bátar í sömu röð 2022 og 2023.

Vinnslustöðin á Kap II, reyndar eina bátinn sem gerður er út á netaveiðar frá Vestmannaeyjum og í þeim efnum útgerðarsögu Eyjanna og landsins alls er sannarlega af sem áður var.

Vinnslustöðin gerði líka út Brynjólf VE á net en lagði honum á árinu 2022 og seldi til niðurrifs í Belgíu. Brynjólfur var engu að síður í 7. sæti á lista yfir aflahæstu netabáta árið 2022 og lauk þar með sögu sinni á Íslandsmiðum.

  • Tölfræðilegar upplýsingar um afla netabáta eru fengnar af þeim árvökula vef, aflafrettir.is, sem Gísli Reynisson í Reykjanesbæ á og ritstýrir af eljusemi.

Fimm efstu sæti á lista netabáta árið 2023 eru þannig skipuð:

Heildarafli, tonn veiðiferð   Landanir Meðalafli í veiðiferð
1. Kap VE-7 2.790,4 68 41,1
2. Bárður SH-81 1.801,3 72 25,1
3. Þórsnes SH-109 1.787,4 47 38,1
4. Erling KE-140 1.122,4 71 15,8
5. Jökull ÞH-299 720,4 14 51,5

Hliðstæður listi fimm efstu netabáta árið 2022:

Heildarafli, tonn Landanir Meðalafli í veiðiferð
1. Bárður SH-81 2.564,3 98 26,2
2. Kap VE-7 2.364,6 63 37,5
3. Þórsnes SH-109 2.074,7 44 47,2
4. Erling KE-140 1.738,3 136 12,8
5. Jökull ÞH-299 1.554,9 22 67,6

Kap II man tímana tvenna

„Kap VE II er langelsta skipið í flota Vinnslustöðvarinnar og hefur frá árinu 2017 verið á netaveiðum á okkar vegum á vetrarvertíðum. Skipið á þá sögu í grófum dráttum að vera smíðað í Stálvík 1967 og hét upphaflega Óskar Magnússon AK-177,“ segir Sverrir Haraldsson, sviðstjóri botnfiskssviðs Vinnslustöðvarinnar.

„Árið 1976 keypti Bessi sf. skipið til Vestmannaeyja, félag Einars Ólafssonar skipstjóra og Ágústs Guðmundssonar vélstjóra. Í apríl 1987 eignaðist Fiskimjölsverksmiðjan í Vestmannaeyjum Kap, fyrirtæki sem ásamt fleirum sameinuðust síðar undir merkjum Vinnslustöðvarinnar.

Kap VE á sér fortíð á síldveiðum og loðnuveiðum og skipið sjálft hefur tekið ýmsum breytingum í tímans rás, til að mynda verið bæði lengt og fengið nýja yfirbyggingu.

Sjálft útgerðarmynstrið hefur ekki síður tekið breytingum. Netabátar voru áður gerðir út í tugatali frá Vestmannaeyjum en nú er Kap hér ein eftir á netum.

Sömu sögu er að segja annars staðar á landinu. Þar er helst að nefna  nokkra staði á Suðurnesjum, Snæfellsnesi og á Norðurlandi þar sem netaveiði er enn stunduð í einhverjum mæli.“