Vinkonurnar Sara Rós Sindradóttir og Ingibjörg Emilía Sigþórsdóttir eru 10 ára. Þær eru duglegar að taka sér hin ýmsu verk fyrir hendur. Þeim finnst skemmtilegt að fara í sund og út að leika sér á kvöldin. Þær hafa þó báðar lent í því að vera vísað upp úr sundi klukkan hálf átta eða verið meinaður aðgangur í sund þegar skammt er eftir af útivistartíma þeirra sem lýkur klukkan átta. Hjá íþróttamiðstöðinni fengust þau svör að þar á bæ þyrftu þau einfaldlega að fara eftir settum reglum og sjá til þess að börn hefðu nægan tíma til að koma sér heim áður en útivistartíma þeirra lyki. Þær vinkonur voru ekki ánægðar með þessa niðurstöðu. Þær tóku málin í sínar hendur, settust niður og settu saman eftirfarandi áskorun.

„Áskorun um breyttan útivistartíma barna
Berist til mennta- og barnamálaráðherra Ásmundar Einars Daðasonar
Við viljum að útivistartíma barna á veturna verði breytt þannig að börn á aldrinum 10 -12 ára megi vera úti til kl. 21.

Við viljum geta farið í sund eða mætt á fótboltavelli eftir kvöldmat, æft okkur, leikið og átt samskipti við vini okkar. Það er miklu betra en að vera bara heima, hanga í símanum eða spila tölvuleiki sem foreldrar okkar vilja ekki.

Okkur finnst ekki sanngjarnt að 6 ára börn og 10 ára börn hafi sama útivistartíma. Við erum líka alveg jafn synd kl. 19.00 og 21.00 en við megum ekki fara ofan í sundlaugina kl. 19.30 sem er ósanngjarnt. Eins byrjar skólinn okkar núna 20 mínútum seinna en áður og því getum við sofið lengur en áður.

Til vara biðjum við um að mega vera á stofnunum bæjarins til kl 21 eða svo lengi sem það sé á leið frá tómstundaiðkun.“

Móttökurnar létu ekki á sér standa „Krakkarnir í skólanum tóku hugmyndinni vel og hvöttu okkur áfram,“ sagði Sara Rós. „Það var gaman að safna undirskriftum og yfir 80 krakkar úr 5., 6. og 7. bekk skrifuðu undir hjá okkur,“ bætti Ingibjörg við. Stelpurnar voru sammála um að ef maður vill breyta einhverju þá verður maður að gera eitthvað í því, ekki bara tala um það eða fresta því. „Við höldum að þessi breyting verði til þess að krakkar á okkar aldri fari frekar út að leika sér eftir kvöldmat en að hanga bara í símanum,“ sagði Ingibjörg.

Þær komu síðan undirskriftunum á Ásmund Einar sem boðaði þær vinkonur á fjarfund. „Fundurinn var góður en stressandi. Við lásum fyrir hann áskorunina og síðan ræddum við málin. Hann var ánægður með framtakið og vildi endilega hitta okkur næst þegar hann kemur til Vestmannaeyja.,“ sagði Sara Rós. „Hann gat ekki lofað okkur neinu en sagði okkur að það ætti að fara að skoða þessi lög og hann ætlaði að taka þetta til greina hjá okkur og þakkaði okkur fyrir,“ bætti Ingibjörg við.

„Krakkarnir voru mjög ánægðir með þetta og allir vildu taka þátt og skrifa undir. Við fengum að fara inni í nokkra bekki í skólanum og segja frá þessu og í matsalnum. Kennararnir voru líka mjög ánægðir með okkur,“ sagði Ingibjörg.

Þær vinkonur voru mjög ánægðar með þessa reynslu alla. „Okkur finnst það merkilegt að krakkar geti hugsanlega haft áhrif á það hvernig í lögin í landinu eru sett. Það var líka mjög gaman að ráðherra gæfi sér tíma til að tala við okkur og hlusta á okkar skoðanir,“ sagði Sara Rós. Þær voru sammála um að hafa mun meiri áhuga á því hvernig lög og reglur í landinu eru settar eftir þetta skemmtilega uppátæki.

Ásmundur Einar hafði þetta að segja um fundinn og framtakið hjá stelpunum. „Þetta var frábært spjall við öflugar ungar konur, við munum að sjálfsögðu taka þetta til skoðunar og leggjast yfir málin.“

Sara Rós og Ingibjörg á fjarfundi með Ásmundi Einari