Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hefur kynnt í ríkisstjórn þá ákvörðun að setja af stað vinnu sem miðar að því að gefa út reglur um farsímanotkun í grunnskólum landsins, en hún er óvíða eins mikil og hér á landi. Verða reglurnar unnar í víðtæku samráði við foreldra og börn, sveitarfélög, skólastjórnendur, kennara og aðra hagaðila, og gert ráð fyrir að þær verði nýttar sem leiðbeinandi viðmið fyrir grunnskóla við setningu skólareglna um farsímanotkun. Eitt meginstefið þar sé að tryggja fullnægjandi fræðslu um símanotkun og forvarnir til að stuðla gegn þeim mögulegu neikvæðu áhrifum sem hún getur haft í skólum.

Eins og greint var fyrst frá á vef Eyjafrétta voru í vikunni kynntar nýjar reglur um notkun farsíma í GRV.

Í nýrri rannsókn Fjölmiðlanefndar og Menntavísindastofnunar Háskóla Íslands kemur fram að næstum öll íslensk börn í grunnskóla eigi eigin farsíma, eða 95% barna í 4.–7. bekk og 98% barna í 8.–10. bekk. Hlutfall barna og ungmenna sem nota netið til að leysa skólaverkefni er lágt í yngstu bekkjunum en eykst með aldrinum, frá því að vera 7% sem gera það daglega í 4.–7. bekk, 38% í 8.–10. bekk og í framhaldsskóla stendur hlutfallið í 74%.

Notkun upplýsinga- og samskiptatækni gegnir mikilvægu hlutverki í skólastarfi en samhliða þarf að vinna markvisst gegn neikvæðum afleiðingum tækninnar á börn og ungmenni í íslensku menntakerfi. Nýjar rannsóknir benda til þess að mikil aukning sé í skjátíma, sérstaklega hjá börnum og að aukningin hafi meðal annars neikvæð áhrif á svefn, andlega og líkamlega heilsu barna. Þá hafa rannsóknir sýnt að takmarkanir á notkun farsíma í skólum bæta námsárangur, sérstaklega hjá nemendum sem eru með slakan námsárangur.

„Tækninni fleygir fram og ljóst að henni fylgja ekki eingöngu kostir. Vinna þarf gegn neikvæðum áhrifum tækninnar samhliða því að nýta þau jákvæðu. Skjánotkun er mikil hérlendis og fer vaxandi. Skoðanir eru skiptar í samfélaginu og skólareglur misjafnar eða jafnvel ekki til staðar. Við ætlum að skilgreina viðmið fyrir grunnskóla og auka fræðslu í þessum efnum til að bregðast við þessari þróun með farsæld barna að leiðarljósi, og hjálpa þeim þannig að bregðast við,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.