Grunnskóli Vestmannaeyja hefur ákveðið að banna nemendum með öllu að nota farsíma í skólanum. Þó nokkrir skólar á landinu hafa gert hið sama og hefur bann á símum í skólum verið mikið í umræðunni upp á síðkastið. Anna Rós Hallgrímsdóttir, skólastjóri GRV, boðaði farsímabannið á setningu skólans í Íþróttamiðstöðinni fyrr í dag.

„Við létum vita á skólasetningunni áðan að það verða breytingar á skólareglunum hjá okkur þar sem nú verður óheimilt að vera með snjalltæki í einkaeigu í skólanum” sagði Anna Rós í samtali við Eyjafréttir. Bannið tekur gildi á morgun þegar kennsla hefst samkvæmt stundaskrá.

Gott að vera stundum laus við símana

„Þetta er náttúrulega búið að vera í umræðunni í samfélaginu og í kennarahópnum hjá okkur mjög lengi og við höfum prufað undanfarin ár að vera með svona símalausa mánuði sem hafa gengið mjög vel. Kennarar hafa fundið mikinn mun á nemendum og tóku eftir mun meiri einbeitingu og minni truflun í tímum þegar þetta var í gildi. Við höfum líka gert könnun bæði meðal starfsfólks og nemenda þar sem meðal annars hefur komið í ljós að sumir nemendur töldu bara nokkuð gott að fá smá pásu frá tækjunum. Að sjálfsögðu voru ekki allir ánægðir en það kom okkur samt á óvart hvað það voru margir sem lýstu yfir því að það væri gott að vera stundum laus við símana.”

Símar hafa upp til þessa verið óheimilir í kennslu en þá hefur mátt vera með þá uppi á milli tíma, svo sem í frímínútum, nesti og hádegismat.

Í boði að geyma símann í læstum skáp

Anna Rós mælir með því að símarnir verði skildir eftir heima en ef það er ekki hægt þá sé til dæmis hægt að geyma þá í læstum skápum í skólanum, eða að slökkva á þeim og geyma í skólatöskunni. „En þá er ekki í boði að taka þá upp á skólatíma og það eru þá bara ákveðin viðurlög við því og þau geta þá valið um að afhenda kennara tækið eða að foreldri sæki það. Við verðum með skýrar reglur á því og svo þurfum líka bara aðeins að ræða við nemendur þegar þau mæta hvernig þau sjá þetta fyrir sér.”

Símaúr sem hringja í tíma

„Í raun og veru hafa símar verið bannaðir í skólanum upp að unglingadeild þannig að þetta hefur mest verið bara á unglingastiginu og þá hafa þeir verið að valda miklum truflunum. Bæði að trufla einbeitingu nemenda og svo eiga nemendur stundum erfitt með að hætta í símanum á milli kennslustunda og oft bara hlýða ekki kennurum að setja þá niður, þannig að það fer oft mikill tími í þessi mál.”

„Í Hamarsskóla hefur þetta meira að segja alveg stundum verið vandamál, eins og þegar símaúr hringja í kennslustund og trufla þá einbeitingu.”

Markmiðið með banninu sé því meðal annars að auka einbeitingu nemenda í kennslustundum, minnka truflun í tíma, og að stuðla að því að nemendur eigi í frekari félagslegum samskiptum við hvort annað í frímínútum og matartíma. „Við munum bjóða upp á einhverja afþreyingu í staðinn fyrir þau og þá fáum við kannski nemendaráðið í það að finna einhverjar leiðir með okkur.”

Með aðgang að spjaldtölvum

Þriggja ára spjaldtölvuinnleiðingu skólans lauk í vor og stefnir skólinn á að nýta tæknina til að bæta kennsluhætti og fjölbreytileika í námi barnanna. „Þau eru öll með tæki þannig að þau eiga að geta fengið alla þá hjálp sem þau þurfa með þeim tækjum sem skólinn skaffar. Við erum með annað hvort iPad eða Chromebook þannig að það á ekki að þurfa að vera vandamál.”

„Við höfum verið að fá mikið af athugasemdum frá foreldrum þegar við höfum verið með þessa símalausa mánuði og þá hafa foreldrar spurt okkur af hverju við höldum ekki áfram. Ég gat nú eiginlega ekki annað heyrt á skólasetningunni áðan en að það hafi nú bara verið klappað þegar ég tilkynnti þetta. Ég geri ráð fyrir að það hafi frekar verið foreldrar heldur en börnin” segir Anna Rós að síðustu og óskar eftir góðri samvinnu foreldra í verkefninu.