Það eru mikil vonbrigði að ráðherra skyldi ekki komast til Eyja til þess að mæta á fundinn í kvöld, en svona til gamans, hvernig er saga Landeyjahafnar út frá mínu sjónarmiði?

Ég tók þátt í bæjarstjórnarkosningunum vorið 2006 og fékk þá á mig þessa spurningu: Hvort myndir þú vilja göng, Landeyjahöfn eða nýja, hraðskreiðari ferju til Þorlákshafnar?

Fyrsta svarið var auðvelt, göng væru alltaf nr. 1. Annar valkostur var hins vegar flóknari fyrir mig, vegna þess að ég hafði t.d. lesið bækur eins og Öruggt var áralag þar sem fjallað er um langafa minn, Sigga Munda, og þegar útgerð var frá Landeyjasandi, með öllum þeim hörmungum sem þeim fylgdu.

Ég hafði einnig rætt þetta við afa minn og nafna úr Keflavík, sem var einn af þeim sem keyptu flakið af Surprise sem strandaði í Landeyjasandi árið 1966, ef ég man rétt, og lenti hann í miklum hremmingum við að rífa það.

Einnig hafði ég hlustað eftir því sem góður vinur minn, Gísli Jónasson heitinn, hafði að segja varðandi hreyfingarnar á sandinum. Einnig var það eitt af því fyrsta sem gömlu trillukarlarnir sögðu við mig þegar ég var að byrja í útgerð, passaðu þig á því að lenda ekki uppi í sandi. Þessu til viðbótar, þá stundaði ég netaveiðar á Pétursey VE sumarið 2004 einmitt uppi í sandi og kynntist því vel hversu ofboðslega sjórinn er fljótur að rjúka upp, og þá jafnvel við engan vind.

Niðurstaða mín var því afar einföld: Ferja sem gæti farið á 1,5 tíma til Þorlákshafnar og tekið 1000 farþega og 250 bíla væri klárlega valkostur nr. 2 hjá mér. En eins og við vitum þá varð Landeyjahöfn fyrir valinu, að mörgu leyti skiljanlegt, styttri siglingatími en samt miðað við vegalengd, sambærilegur ferðatími og valkostur nr. 2 hjá mér  miðað við höfuðborgarsvæðið.

Margir vöruðu við þessari leið og þá sérstaklega reyndir sjómenn, en á þá var ekki hlustað.

Í janúar 2007 var haldinn stór fundur uppi í höll, þar sem Gísli Viggósson og félagar voru að kynna þetta verkefni. Ég ákvað að mæta og láta sannfæra mig um að þetta gæti gengið, en það fór nú ekki betur en svo að fyrsta hugsunin eftir að ég gekk út af þessum fundi var, að menn væru bara hreinlega stór bilaðir. Ástæðan fyrir þessu var, að í kynningunni hjá Gísla Viggóssyni kom fram, að í vondum veðrum yrðum við að reikna með því að ferjan myndi rekast í, í innsiglingunni (þess vegna voru sett rör sitt hvoru megin í innsiglingunni, en þau hurfu eftir fyrsta árið eða svo). Einnig gætum við í verstu veðrum mátt búast við því, að ferjan tæki niður inn og út úr höfninni, en þetta eru að sjálfsögðu hlutir sem að vissulega hafa gerst að einhverju leyti, en að sjálfsögðu engin gerir á farþegaferju, hvað þá á öðrum skipum.

En til þess að reyna að fá einhver svör fór ég ásamt vini mínum eftir fundinn niður á það sem hét þá Café María og hitti þar einmitt Gísla Viggóssyni og óskaði eftir því að fá að leggja fyrir hann eina spurningu. Spurningin var svo hljóðandi: Nú er höfnin svo austarlega, hvað með austanáttina? Og svarið: Hafðu engar áhyggjur vinurinn, það kemur eiginlega aldrei austanátt í Eyjum.

Nú veit ég að Gísli þekkti ekki mig eða mína þekkingu en þegar ég bæti þessu öllu við þá fullyrðingu frá Gísla Viggóssyni um það að höfnin yrði að vera á þessum stað, vegna þess að þarna væri skjól í suðvestan áttinni, þá var niðurstaðan hjá mér alveg skýr; þetta getur aldrei gengið og hefur ekki gengið í bráðum 14 ár.

Mér er líka minnisstætt í lok ágúst 2010 þegar þáverandi bæjarstjóri í Vestmannaeyjum skrifaði grein í Eyjafréttir með þessum orðum: Stoltur af því að við í bæjarstjórninni stóðum af okkur allar úrtölu raddirnar. Daginn eftir lokaðist höfnin í fyrsta skipti og vandræðagangurinn hófst.

Fyrr um sumarið 2010 er mér kunnugt um að það kom fyrirspurn frá Þorlákshöfn um hvað ætti að gera við aðstöðu Herjólfs þar, og svar frá Eyjum að það væri óhætt að rífa þetta, við ætlum ekkert að sigla þangað oftar.

Ég sé stundum á fésbókinni að sumir eru á þeirri skoðun að kannski hefði verið best, ef aðstaðan í Þorlákshöfn hefði verið rifin, en ég stór efast um að það hefði nokkuð lagað Landeyjahöfn og eins og núverandi bæjarstjóri í Þorlákshöfn skrifaði í grein fyrir nokkrum árum síðan: Þorlákshöfn mun áfram vera varahöfn fyrir Vestamannaeyinga um ókomin ár.

En svona er jú staðan bara í dag. En hvað á að gera?

Uppástungurnar eru fyrir löngu síðan orðnar óteljandi. Margs konar útfærslur á lengri görðum eða varnargörðum sem að öllum líkindum eiga allar það sameiginlegt, eftir því sem ég hef heyrt frá einstaka starfsmönnum Vegagerðarinnar, muni að öllum líkindum bara stækka vandamálið.

Einnig hefur verið nefnd sú hugmynd að veita Markarfljótinu í gegnum höfnina, sem ég tel ekki sniðugt vegna leirburðar og straums, en sjálfur hef ég frá upphafi verið á þeirri skoðun, að einfaldast væri að setja upp ca. 4 sjódælur inni í höfninni og láta þær dæla út úr höfninni, til þess að koma í veg fyrir að sandur gangi inn í höfnina og auka þá líkurnar á því að auðveldara sé að opna hana, en að sjálfsögðu yrði að vera hægt að slökkva á þessum dælum (ég bar þessa hugmynd upp á stórum fundi í ráðhúsi Vestmannaeyja í október 2015, en henni var hafnað af þáverandi starfsmanni Vestmannaeyjabæjar á þeim forsendum að þetta væri allt of dýrt). En er það svo? Nýjasta nýtt var þessi sanddælubúnaður sem átti að vera tengdur við krana, sem átti að vera staðsettur uppi á garðinum, en þannig að hann væri færanlegur, en hætt var við þetta eftir því sem mér var sagt, vegna þess að kraninn sem átti að kaupa átti, þegar betur var að gáð átti ekki að þola nema 15 metra vindstyrk, en spurning hvort ekki væri hægt að fá öflugri krana í verkið?

Staðan í dag er því, eins og áður hefur komið fram, að mestu óbreytt frá því haustið 2010. Reyndar hefur aðeins hrunið úr báðum görðunum, en hvað sem verður þá vonar maður samt svo sannarlega að ráðherra eða vegamálastjóri komi með einhverjar lausnir, eða amk einhverjar hugmyndir að lausnum, svona þegar að fundur verður haldinn. Ef ekki, þá er að mínu mati krafan einfaldlega sú, að strax verði hafist handa við að klára rannsóknir varðandi hugsanleg göng.

Georg Eiður Arnarsson.