Hallgrímur Steinsson og Daði Pálsson eru að miklu leyti drifkrafturinn og ástæða fyrir velgengni hjá Laxey. Það er samdóma álit þeirra sem vinna sem næst þeim að þeirra samstarf virkar. Þó þeir séu ólíkir. Annar á til að hugsa mjög mikið og mjög djúpt, hinn aðeins minna en vill gera hlutina aðeins hraðar, helst byrja strax. Þið megið giska hvor er hvað.  

Vandvirkur, rólegur og skapandi 

Hallgrímur er fæddur og uppalin í Reykjavík. Kynntist Eyjastelpu, henni Auðbjörgu Jóhannsdóttur, árið 2002 og kom hingað stuttu seinna. Hann byrjaði sem vélstjóri, lengst af á Heimaey þangað til hann fór í land og hóf vinnu hjá Löngu eftir nám í líftækni samhliða sjómennsku. Frá Löngu lá svo leiðin í Laxey þar sem hann starfar nú sem forstöðumaður tæknimála. Það er álit þeirra sem vinna með honum að Hallgrímur eða Halli eins og hann er oftast kallaður sé einstaklega klár.  

Stundum of klár. Setningar eins og: – já, ég er aðeins að hugsa heyrist oft þegar hann er inntur eftir svari eða hvort hann hafi verið að hlusta. Hann hugsar stundum mikið og stundum það djúpt að það eru ekki allir að skilja hvað hann er að fara. En það tala allir fallega um Halla og fegnir að hafa hann með sér í liði. Hann er vandvirkur, rólegur og skapandi persóna með afskaplega þægilegt viðmót í samskiptum. Hann er alltaf til í að hjálpa og það er oft leitað til hans.  

Dugnaður og gleði 

Daði Pálsson er Eyjamaður í húð og hár. Giftur Eyjastelpu, Þóru Sigurjónsdóttur. Hann hefur það sem einkennir Eyjamenn. Dugnað og gleði og að auki hefur hann óbilandi trú á það sem hann er að gera sem smitast áfram á aðra einmitt vegna áður nefndra eiginleika, dugnaðar og gleði. 

Það er mikil orka sem geislar af Daða og hlutirnir ganga oft of hægt fyrir hann. Hann vill gera hlutina hratt og örugglega. Þrátt fyrir að hann setji ábyrgð á starfsfólk og kröfur, er hann samt ávallt að hugsa um fólkið sitt. Hann er ákveðinn, sumir segja þrjóskur, og stundum þegar hann bítur eitthvað í sig verður því ekki haggað. En þegar öllu er á botninn hvolft leynist afskaplega gott hjarta sem vill öllum vel og starfsfólkið finnur það.  

Meira ólíkir en líkir 

Það er ekkert í fljótu bragði sem segir að samstarf þeirra ætti að virka. Þeir eru að mörgu leyti meira ólíkir en líkir. En það sem er líkt með þeim er svo sterkt og ríkjandi. Þeir hafa mjög svipuð gildi og þó svo að gildin þeirra séu að sama toga kemur hún fram á ólíkan máta. Metnaðurinn er það afl sem togar þá saman. Heldur þeim saman.  

Þeir eru meðvitaðir um að þeir koma með ólíka hluti að borðinu en bera mikla virðingu hvor fyrir öðrum. Geta alveg verið ósammála og tekist á. Þeir eru báðir afskaplega metnaðarfullir, hafa metnað til  að skapa og ná árangri.  Þeir hafa ekki bara metnað fyrir þá sjálfa heldur einnig fyrir samfélagið sem þeir búa í. Þeir vita líka að starfsfólkið sem þeir hafa valið skiptir máli til að ná þessum sameiginlegum markmiðum. Þeir sýna starfsfólki umhyggju og metnaður þeirra smitar út frá sér.  

Það er auðvelt að skilja hvað Laxey getur gert fyrir samfélagið þegar þú ert í kringum þá. Það eru allir boðnir og búnir, tilbúnir að leggja sitt á vogaskálarnar. Þeir leiða sitt fólk með góðu fordæmi. Það má svo sannarlega segja að í þessu tilfelli þá dansa limirnir eftir höfðinu.   

Óskar Jósúason, upplýsingarfulltrúi Laxeyjar. 

Daði Pálsson og Hallgrímur Steinsson.