Það þykir orðið tíðindum sæta ef börn fæðast í Vestmannaeyjum. Hægur leikur hefur verið að telja fjölda þeirra á fingrum annarrar handar sem fæðast hér á ári hverju. Það ræður mestu sú aðstaða og öryggi sem verðandi mæðrum er boðið upp á í Vestmannaeyjum.

Hluti þeirra foreldra sem hafa verið svo lánsöm að getað átt í heimabyggð hafa þó lent í því að fæðingarstaður barns er skráður í Árborg hjá Þjóðskrá. Þykir mörgum þetta súrt í broti og hafa því haft samband við Þjóðskrá til að leiðrétta þessa villu. Þjóðskrá vísar jafn harðan á Heilbrigðisstofnun Suðurlands að skráningin sé þaðan komin. Dæmi er þess að foreldrar í Vestmannaeyjum hafi staðið í bréfaskriftum við HSU í á annað ár um að fá þetta leiðrétt en allt kemur fyrir ekki.

Björk Steindórsdóttir, yfirljósmóðir hjá HSU sagðist í samtali við Eyjafréttir kannast við þetta vandamál. “Ég hafði fengið fréttir af þessu og við höfum í einhverjum tilvikum þar sem beinar fyrirspurnir bárust farið í að skoða fæðingatilkynningar og séð að það var rétt skráning þar og ef ekki var rétt þá leiðrétt.”

Hún segir málið ekki eins einfalt og ætla mætti. “Þetta er töluvert flóknara mál en það sýnist og er það þannig að Embætti landlæknis og fæðingaskráning er að skoða þessi mál og gera breytingar. Þó rétti fæðingarstaðurinn standi á fæðingatilkynningunum sem við gerum, þá virðist það fara inn í þjóðskrá og Fæðingaskráninguna,  að fæðingarstaður sé Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Heilbrigðisstofnun Suðurlands virðist svo skilgreinast sem einn fæðingarstaður sem er auðvitað kolrangt. Það hafa t.d. líka verið fæðingar á Höfn í Hornafirði og sama vandamál kom upp þar í Fæðingaskránni. Það er líka að nefna að þetta vandamál birtist einnig á HSA og HSN sem hafa fleiri en eina starfsstöð. Nú er verið að vinna í að laga þessa villu og skilgreina fleiri fæðingarstaði á Heilbrigðisstofnun Suðurlands og einnig á öðrum heilbrigðisstofnunum. Það eru miklar uppfærslur  á kerfum og bæting  rafræna skráningarkerfinu. Mig grunar að þar liggi einhver skýring og það þurfi að huga sérstaklega að þessari villu í kerfinu. Forritarar og þróunaraðilar mæðra- og fæðingaskrár eru meðvituð núna um þetta vandamál og eru að vinna með það.”

Fyrir þá sem vilja kanna skráningu barna sinna í Þjóðskrá geta gert það hér. Þeir sem telja sig þurfa að fá hana leiðrétta eru hvattir til að hafa samband við HSU.