Í dag eru 40 ár síðan Guðlaugur Friðþórsson vann það mikla afrek að synda sex kílómetra í land eftir að Vélbáturinn Hellisey VE 503 fórst að kvöldi sunnudagsins 11. mars 1984. Að því tilefni fór fram í morgun hið svokallaða Guðlaugssund í sundlaug Vestmannaeyja.

Stýrimannaskólinn í Vestmannaeyjum undir stjórn Friðriks Ásmundssonar hóf strax árið 1985 að minnast þessa atburðar með því að nemendur syntu í Sundlauginni Vestmannaeyja boðsund. Síðar fóru nokkrir einstaklingar að synda með til að minnast öryggismála sjófarenda.

Alan Friðrik Allison sér um að halda utan um sundið og hefur gert það undanfarin ár. Alan sagði í samtali við Eyjafréttir að um 20 manns hefðu þú þegar synt og von væri á fleirum eftir hádegi hann reiknaði með í heildina yrðu þetta hátt í 40 manns. Þrír einstaklingar hafa nú þegar klárað heilt sund en það voru þau: Héðinn Karl Magnússon, Pétur Eyjólfsson og Sonja Andrésdóttir. Alan var ánægður með mætinguna og sagði góðan anda meðal sundfólks.