Vestmannaeyjabær réði á dögunum þær Drífu Gunnarsdóttur í stöðu Framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs og Helgu Sigrúnu Í. Þórsdóttir í stöðu Deildarstjóra fræðslu- og uppeldismála.
Við tókum stöðuna á þeim, fáum að kynnast þeim og fá innsýn í þeirra verkefni í starfi. 

Drífa Gunnarsdóttir 

Drífa er fædd árið 1970 og er gift Bergsteini Jónassyni. Saman eiga þau þrjú börn, Jónas, Huldu Ósk og Sveu Maríu. Tengdabörnin eru tvö, Sara Rós og Þorgeir Örn og svo eru tveir sonarsynir þeir Bergsteinn Bóas og Hrói Snær. Áhugamál hennar eru útivera með hundinn Marvel, ferðalög, horfa á körfubolta og Liverpool og annað gott sjónvarpsefni. 

Drífa er með meistarapróf í náms- og kennslufræðum með áherslu á íslensku og diplóma í opinberri stjórnsýslu. Hennar fyrri störf eru grunnskólakennari, stjórnandi í grunnskóla og nú síðast fræðslufulltrúi hjá Vestmannaeyjabæ. Í dag starfar Drífa sem framkvæmdarstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs. 

Hvað felst í starfinu?
Í megindráttum er það ábyrgð á rekstri og faglegri starfsemi sviðs sem veitir stoðþjónustu til allra sviða og stofnana Vestmannaeyjabæjar svo þjónustan verði eins fagleg og góð og kostur er og að bæjarsjóður sé rekinn með faglegum, hagkvæmum og skilvirkum hætti. Í starfinu felst líka umsjón, ábyrgð og eftirlit með framkvæmd laga, reglugerða og stjórnvaldsfyrirmæla sem gilda um starfsemi Vestmannaeyjabæjar og heyra undir sviðið og umsjón og eftirlit með því að ákvörðunum bæjarstjórnar, bæjarráðs og bæjarstjóra í umboði bæjarstjórnar sem framfylgt. Verkefni bæjarritara eru líka hluti af starfinu. 

Helstu verkefni?
Dagleg stjórnun á starfsemi stjórnsýslu- og fjármálasviðs og aðstoð við bæjarstjóra. Svo er það yfirumsjón með fjármálaumsýslu og undirbúningi og framkvæmd áætlana. Einnig umsjón og ábyrgð á ýmsum þáttum, s.s. innkaupamálum, atvinnu- og nýsköpunarmálum, menningarmálum, skjalamálum, samningagerð o.fl. Leiða þróun og umbætur ýmissa verkefna og vera ráðgefandi um stjórnsýsluleg málefni. Undirbúningur funda bæjarráðs og bæjarstjórnar og umsýsla með fundargerðum, ritun fundargerða og eftirfylgni með málum bæjarráðs og bæjarstjórnar í samráði við bæjarstjóra, formann bæjarráðs og forseta bæjarstjórnar. 

Hvernig lýst þér á framhaldið?
Mér líst vel á starfið og vinnustaðurinn er frábær. Auðvitað er það ákveðin áskorun að fara í nýtt og krefjandi starf en það er líka mjög spennandi. Reynslan og þekkingin sem ég öðlaðist í fyrra starfi gagnast mér vel og það var ýmislegt sem ég kunni ágætlega þegar ég kom inn í starfið. Eðlilega eru svo hlutir sem ég þarf að læra og koma mér inn í og þar nýt ég góðs stuðnings frá samstarfsfólkinu sem eru allt frábærir sérfræðingar á sínu sviði og eru boðnir og búnir að aðstoða mig. 

Eitthvað að lokum?
Áfram Liverpool og Þór Akureyri í körfunni. Verum jákvæð og besta útgáfan af okkur sjálfum hverju sinni. 

 

Helga Sigrún Í. Þórsdóttir 

Helga Sigrún Í. Þórsdóttir er fædd árið 1978. Hún er gift Jónasi Guðbirni Jónssyni og saman eiga þau tvö börn, Jón Grétar nema í F.Í.V og Maríu Sigrúnu grunnskólanema. 

Helga Sigrún útskrifaðist með stúdentspróf frá F.Í.V. 1998. B.Ed. gráðu í grunnskólakennarafræðum með áherslu á yngri barna svið árið 2003. Dipl.Ed. gráðu í uppeldis og menntunarfræði með áherslu á sérkennslu árið 2008 og M.Ed. gráðu í sérkennslufræðum árið 2015. Leyfisbréf til að nota starfsheitið leik- og grunnskólakennari auk framhaldskólakennari í sérkennslu.
Frá því að hún lauk kennaraprófi árið 2003 hefur hún starfað í skólakerfinu. Hún vann í Smáraskóla í Kópavogi frá 2003-2013, flutti þá þeim til Eyja 2012 og hóf störf við GRV 2013, fyrst sem umsjónarkennari og svo sérkennari til ársins 2020 en þá tók hún við starfi kennsluráðgjafa á Skólaskrifstofu V.M.  

Áhugamál hennar liggja mikið í íþróttum og fylgist hún vel með sínum liðum. Henni finnst gaman að ferðast með fjölskyldunni og skella sér í göngutúr með hundinn. „Auk þess fylgist ég vel með menntamálum og því fylgir mikill lestur fræðigreina. Svo lengi lærir sem lifir á því vel við.“ 

 Hvað felst í starfinu?
Deildarstjóri fræðslu- og uppeldismála hefur umsjón með fræðslumálum og sinnir stjórnsýsluverkefnum sem varðar þennan málaflokk. Unnið er náið með öðrum málaflokkum fjölskyldu- og fræðslusviðs eins og félagsþjónustu, barnavernd, málaflokki fatlaðra og tómstundamálum. „Mitt hlutverk er að veita faglega forystu og móta framtíðarsýn í samræmi við skólastefnu sveitarfélagsins, hafa umsjón með framkvæmd laga um fræðslumál sem og sinna öðrum verkefnum sem tilheyra fræðslumálum í umboði framkvæmdastjóra sviðsins og fræðsluráðs.“ 

Helstu verkefni?
Verkefnin eru mörg og fjölbreytt en grunnskólinn, leikskólarnir, sérfræðiþjónusta skóla, Frístundaverið, dagforeldrakerfið, Gæsluvöllurinn, Tónlistarskólinn og Sumarfjörið heyrir undir fræðslusvið og þá Skólaskrifstofu. „Á Skólaskrifstofunni starfa auk mín, Ragnheiður sálfræðingur, Guðrún, sérkennsluráðgjafi leikskólana, Sigurlaug ráðgjafi, Eva Rut ráðgjafi og Helga Magnea ráðgjafi. Hlutverk okkar er að sinna stoðþjónustu, þjónusta skólana í þeirra starfi, foreldra og nemendur. Við sinnum mati og eftirliti með með gæðum skólastarfsins og með starfsemi Frístundavers, sumarúrræða, gæsluvallar og daggæsluúrræða og fylgjum matinu eftir þannig að það leiði til umbóta. Umsjón með rekstri, áætlanagerð og eftirlit  fyrir stofnanir sem heyra undir fræðslusvið.“ 

Hvernig lýst þér á framhaldið?
Ég er mjög spennt fyrir komandi tímum en eins og fylgir því að byrja í nýju starfi er margt sem er nýtt sem þarf að læra. Þetta er krefjandi starf og á ég eftir að koma mér betur inn í fjölmörg verkefni og það tekur tíma. Fram undan eru ýmsar breytingar sem munum hafa áhrif á starfið eins og t.d. breytingar á lögum um skólaþjónustu sem nú eru til skoðunar og einnig skipting á grunnskólanum í tvær rekstrareiningar. Innleiðing á lögum um farsælda þjónustu í þágu barna hefur verið í gangi í Vestmannaeyjum sem og annars staðar en lögin stuðla að því að börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi aðgang að samþættir þjónustu við hæfi án hindrana. Annars hef ég lært margt af forvera mínum henni Drífu og skilur hún eftir sig mjög gott starf á Skólaskrifstofunni. Það mun hjálpa mér mikið að hafa unnið þar síðustu ár en með mér starfar þar mjög gott fólk. Að sama skapi höfum við öfluga einstaklinga sem stýra öllum skólunum hér í Eyjum og það er hvetjandi fyrir nýja manneskju eins og mig að kynnast þeim enn betur og eiga samstarf með þeim.  Í Vestmannaeyjum er skólastarfið mjög gróskumikið og metnaður starfsfólks mikill. Það er því auðvelt að hrífast með og vilja leggja sitt á vogaskálarnar til að gera enn betur. Ég er því full tilhlökkunar að takast á við þetta starf.