Stjórn SASS hefur fjallað um tillögur fagráðs atvinnuþróunar og nýsköpunar annars vegar og fagráðs menningar hins vegar um úthlutun verkefnastyrkja úr Uppbyggingasjóði Suðurlands. Um er að ræða fyrr úthlutun sjóðsins árið 2024. Umsóknir voru samtals 134, í flokki atvinnuþrónar- og nýsköpunarverkefna bárust 45 umsóknir og 89 í flokki menningarverkefna.

Að þessu sinni var 40,5 m.kr. úthlutað,  18,3 m.kr. til 16 verkefna í flokki atvinnuþróunar og nýsköpunar og 22,2m.kr. til 50 verkefna í flokki menningar. Samtals eru veittir styrkir til 66 verkefna.

Verkefnin sem fengu styrk úr Eyjum eru eftirfarandi:

Undirbúningur markvissrar nýtingar ölduorku við Suðurland
Dagný Hauksdóttir 2.000.000 kr.

Haf-Afl hyggst setja upp og reka nýja tækni ölduvirkjana í þeim tilgangi að tryggja samfélögum raforkuöryggi með ábyrgri nýtingu auðlindarinnar, uppbyggingu atvinnulífs og sátt við samfélagið að leiðarljósi. Verði að stórfelldri uppsetningu ölduorkubúnaðar er ljóst að mikil sköpun afleiddra starfa myndast sem leitast verður við að verði í heimabyggð. Á næstu mánuðum verður unnið að staðsetningarvali, hagvkæmnimati og greiningu umhverfisáhrifa vegna uppsetningar ölduvirkjana við Vestmannaeyjar.

Veiðar og rannsóknir á rauðátu við Suðurströndina
Rauðátan ehf. 1.500.000 kr.

Verkefnið snýst um nýja tækni sem sameinar gögn frá gervihnetti og nýrri gerð bergmálsmæla til að leita markvisst að rauðátu á hafsvæðinu við Vestmannaeyjar. Bergmálstæknin er áhrifarík og ef hún er samþætt í þverfaglegar rannsóknir sem taka mið af vistfræði, haffræði og sjávarútvegi. Samþætting gagna frá bergmálsmælum, frá gervihnöttum og öðrum haffræðilegum tækjum, er ein þeirra leiða til að auka skilning á vistfræðilegum tengslum tegunda og umhvefis.

Saltey – næstu skref
eySalt ehf. 500.000 kr.

Saltey ætlar að koma sér á vörumarkað á Suðurlandi og tryggja sinn stað þar. Við ætlum að auka vöruúrval okkar og nýta styrkinn í vöruþróun með hráefnum sem vaxa villt í Vestmannaeyjum.

Á slóðum Tyrkjaránsins
Ragnar Óskarsson 400.000 kr.

Verkefnið felst í því að gera Tyrkjaráninu í Vestmannaeyjum árið 1627 skil. Farið verður í göngu í Vestmannaeyjum á slóðum ránsins og sagan rakin á nokkrum áningarsstöðum. Boðið verður upp á sérstaka dagskrá innanhúss þar sem ýmislegt efni tengt ráninu verður kynt. Fyrirlesarar fjalla um nokkra einstaklinga, konur og karla, sem teknir voru sem
fangar, hljómlist frá 17. öld flutt og réttir bragðaðir. Heimsókn í Krosskirkju, altaristaflan túlkuð og fjallað um Kláus Eyjólfsson lögréttumann.

Þjóðhátíð í 150 ár
Byggðasafn Vestmannaeyja 400.000 kr.

Þjóðhátíð Vestmannaeyja fagnar 150 ára afmæli á þessu ári og í tilefni af því er ætlunin að halda uppá það með menningarviðburði í Safnahúsi. Við viljum jafnframt að gera hátíðinni hátt undir höfði með að uppfæra og nútímavæða sýninguna okkar í rými Sagnheima, byggðasafns. Þjóðhátíðarblöðin fari á timarit,is enda eru þau uppfull af mikilvægum heimildum sem þurfa að vera aðgengileg öllum.

Norræn vinátta
Guðný Charlotta Harðardóttir 400.000 kr.

Norræn vinátta er verkefni sem kynnir norræna tónlist, frá öllum Norðurlöndunum. Um leið er sagt frá sögu laganna og þætti hvers lands fyrir sig í uppbyggingu samfélagsins í Vestmannaeyjum eftir gosið árið 1973. Flytjendur eru Cecilie Bang Jensen söngur, Guðný Charlotta Harðardóttir píanó og Kristín Jóhannsdóttir sagnfræðingur.

Saga og súpa
Vestmannaeyjabær 300.000 kr

Saga og súpa hefur fest sig í sessi í Vestmannaeyjum sem vettvangur fjölbreyttra dagskráa þar sem fjallað er um hina ýmsu þætti menningararfs Vestmannaeyja.
Viðburðir í Sögu og súpu eru jafnan afar vel sóttir og reynt er að gæta þess vandlega að bjóða upp á efni sem hæfi sem flestum.

Alla styrki má nálgast hér.