Í kófinu opnuðust augu margra fyrir möguleikum fjarvinnu. Kom það ekki til af góðu, fjöldatakmarkanir, boð og bönn og lokanir sem settu skorður á rekstur fyrirtækja af öllum stærðum og gerðum. Fjarvinna var ekki ný af nálinni en til að bjarga því sem bjargað varð byrjaði fólk að vinna heima. Það gafst vel og hefur fjarvinna stöðugt vaxið síðustu misseri og ár. Í Þekkingarsetrinu er hópur fólks í fjarvinnu og ræddu Eyjafréttir við þær Guðbjörgu Helgadóttur og Þóreyju Ágústsdóttur sem láta vel af. Eru þær gott dæmi um að fjarvinna er góður kostur. Þær vinna fyrir hvort sitt fyrirtækið en störf þeirra teygja sig vítt um heiminn og það eina sem þarf er hentugur stóll, þokkaleg tölva og góð nettenging. Ekki skemmir góður félagsskapur í Þekkingarsetrinu.

Þórey er viðskiptafræðingur frá HR og vinnur hjá Advania sem er með höfuðstöðvar sínar í Reykjavík. Að loknu námi vann hún hjá Lúmex, fyrirtæki sem sérhæfir sig í lýsingarhönnun. „Í náminu lagði ég áherslu á birgða- og vörustýringu og fyrsta verk mitt hjá Lúmex var að koma lagi á lagerinn og uppfæra tölvukerfin. Næst fór ég að vinna hjá SKÝRR sem rann inn í Advania þegar það var stofnað, þannig að ég hef unnið fyrir það fyrirtæki síðan 2006 fyrir utan tvö ár sem ég vann við hugbúnaðarþróun hjá Valitor, þar sem ég starfaði sem PO (Product Owner). Ég hef eiginlega alltaf unnið við upplýsingatækni. Lengst hef ég unnið í bókhaldskerfum, innleiðingum á þeim og þjónustu. Í því starfi kemur viðskiptafræðin að góðum notum,“ segir Þórey.

Millilending í snyrtifræði

Guðbjörg útskrifaðist með BA próf í nútímafræði frá Háskólanum á Akureyri. „Ég veit allt sem er að gerast núna,“ segir Guðbjörg hlæjandi. „Þetta er þverfaglegt nám á hug- og félagsvísindasviði. Ég vissi ekki hvað mig langaði að gera og nútímafræðin er minna sérhæfð en sálfræði eða annað svipað sem ég var að skoða. Þetta var hugsað til að koma mér af stað en ég sneri svo alveg við blaðinu eftir háskólanámið og skellti mér í snyrtifræði. Kláraði námið og sveinsprófið og vann sem snyrtifræðingur um tíma,“ segir Guðbjörg en snyrtifræðin gaf ekki mikið og Guðbjörg sneri aftur við blaðinu.

„Byrjaði að vinna á skrifstofunni hjá Þykkvabæjar. Sá aðallega um pantanir, stýrði útkeyrslu á vörum og öðru því tengt. Það var svo í mars 2018 að ég sótti um vinnu í fjármáladeild Sjóklæðagerðarinnar/66°Norður og þau tóku sénsinn á mér. Er búin að vera þar síðan og líkar vel,“ segir Guðbjörg sem hefur síðan bætt við sig bókhaldsþekkingu í Opna háskólanum, Endurmenntum HÍ og Prómennt.

Vil fjölbreytni í starfi

„Allt í einu varð Advania risastórt fyrirtæki en það hentaði mér vel,“ segir Þórey. „Ég er þannig gerð að mér leiðist að gera alltaf sama hlutinn, hjá Advania fæ ég tækifæri til að vinna ótrúlega fjölbreytt starf, vinn fyrir mörg fyrirtæki sem Advania þjónar. Flesta daga er ég að gera eitthvað nýtt og læri eitthvað á hverjum degi.

Starfið er líka skapandi því við erum alltaf að finna út þarfir viðskiptavinarins, þróun og lausnir sem henta þeim. Ég er mest að vinna með Business Central eða BC eins og það er oftast kallað. En BC er erlent bókhaldskerfi,  forveri þess er Navision sem margir þekkja.  Advania hefur þróað ýmis konar sérlausnir sem eru viðbætur við BC. Til dæmis bjóðum við hjá Advania uppá launakerfi, bankalausnir, beintenging við íslenska banka innheimta, útgreiðslur, afstemmingar, tollakerfi og fjölmargar aðrar lausnir sem henta íslenska markaðinum.“

Hent út í djúpu laugina

„Mér var í raun bara hent út í djúpu laugina og það gekk mjög vel,“ segir Guðbjörg. „66°Norður hefur lengi verið með félag í Danmörku og stofnaði svo félag í Bretlandi 2019 og ég sé um bókhald fyrir bæði félögin. Ég er náttúrulega algjör Eyjalúði og kom mjög reglulega í heimsókn til fjölskyldunnar í Eyjum, auk þess sem ég flutti af og til heim í stutt stopp til að vinna, t.d í sumarfríum og þess háttar, hér er náttúrulega best að vera“ segir Guðbjörg aðspurð um ástæðu þess að hún flutti heim eftir 20 ára fjarveru.

„Mér líður best í Vestmannaeyjum og langaði alltaf að búa hér en atvinnumöguleikar voru ekki miklir. Svo kom Kóvid og starfshlutfallið var lækkað niður í 25% og fólkið sent heim að vinna. Ég sat ein í íbúð í Kópavogi og spurði hvort ég mætti ekki fara til Eyja og vinna þaðan. Ég gæti verið í húsi sem bróðir minn á og það var ekkert mál, gekk frábærlega og mér leið vel,“ segir Guðbjörg og bætir við.

„Ég mætti svo á skrifstofuna í Reykjavík þegar Kófinu linnti en hugsunin um að flytja heim gerjaðist með mér. Þorði ekki strax að spyrja en ákvað rétt fyrir þjóðhátíð; að spyrja bara, þú færð þá bara nei. Ég viðraði hugmyndina við þá sem réðu og fékk ár til reynslu.

Stebbi í Eyjablikk var svo dásamlegur að lána mér aðstöðu frítt þannig að kostnaður fyrir fyrirtækið var enginn þennan prufutíma. Ég er í raun sú eina í fyrirtækinu sem er í svona fastri fjarvinnu og er yfirmönnum mínum óendanlega þakklát fyrir traustið. Allt gekk þetta vel og við vorum sammála um að það væri ekkert því til fyrirstöðu að halda þessu fyrirkomulagi áfram eftir reynsluárið. Hér er ég enn, komin með skrifstofuaðstöðu í Setrinu og líkar vel.“

Vantaði að komast í baklandið

„Ég ætlaði aldrei að fara í fjarvinnu. Mér líður best með það að hafa helling af fólki í kringum mig og ég hef alltaf starfað á stórum vinnustöðum. Það þróaðist bara þannig að allt í einu var ég orðin ein með þrjá krakka og vantaði að komast í baklandið mitt. Hér eru pabbi og mamma og ég sé ekki eftir því að hafa komið heim til Eyja, hér blómstra börnin mín og öllum líður vel. Munurinn er minni streita, meiri tími en ég er samt inni í öllu sem er að gerast í borginni.

Í kófinu vorum við hvött til fjarvinnu. Eftir það hélt það áfram líka í Reykjavík þar sem fólk hefur tök á að vinna heima nokkra daga í viku. Við getum gert samning þess efnis og fengið búnað heim. Í höfuðstöðvunum í Guðrúnartúni var sætafyrirkomulaginu breytt og frjálst sætaval innleitt. Þannig að þegar ég mæti á skrifstofuna í Reykjavík sest ég bara hvar sem er. Það er ein breytingin.“

Danmörk, Bretland og Bandaríkin

„Eins og ég sagði áðan sé ég um bókhald fyrir félögin okkar í Danmörku og Bretlandi og erlendu vefsöluna hjá 66° Norður, fjárhags- og reikningsbókhald og kem að öðrum verkefnum,“ sagði Guðbjörg. „Það er búið að stofna félag í Bandaríkjunum sem er liður í umfangsmikilli uppbyggingu okkar á erlendum mörkuðum. Ég er í daglegum samskiptum við starfsfólkið okkar erlendis, lánadrottna og ákveðna opinbera aðila, sé um flest allt bókhaldstengt nema launavinnslu. Við kaupum þjónustu af fyrirtækjum í London og Kaupmannahöfn sem sjá um þau mál fyrir okkur og ákveðin samskipti við opinbera aðila“ segir Guðbjörg og ekki veitir af í Bretlandi.

„Það er einn stór frumskógur allt þetta opinbera batterí hjá þeim. Við erum með verslunina á Regent Street þar sem við leigjum af krúnunni og skrifræðið er mikið. Þannig að samskiptin eru við marga og starfið mjög fjölbreytt og skemmtilegt,“ segir Guðbjörg og það á líka við hjá Þóreyju.

Fyrirtæki á Íslandi og erlendis

„Ég þjónusta alls konar fyrirtæki jafnt á Íslandi sem og erlendis. Meðal annars vinn ég mikið fyrir fyrirtæki sem heitir  NAAFI (The UK Navy, Army and Air Force Institutes), sem sér meðal annars um veitingaþjónustu og rekstur smásöluverslana fyrir breska herinn. Advania hefur þjónustað NAAFI í tugi ára og ég hef þjónustað þau lengi,“ segir Þórey.

„Breski herinn er risabatterí og með stöðvar vítt og breitt um heiminn og mörg herskip. Við erum líka að vinna fyrir önnur erlend fyrirtæki, Color Line sem er í farþegaflutningum í Skandinavíu. Hér heima vinn ég fyrir ÁTVR, Fæðingarorlofssjóð og Hamfarasjóðinn. Ég sæki í þetta starf því það er svo ótrúlega fjölbreytt. Einnig er svo gefandi að kynnast svona mikið af ólíku fólki og allskonar starfsemi oft verður maður hluti af starfseminni og kynnist fólkinu mjög vel.

Nú erum að plana ferð til NAAFI í Bretlandi og munum vinna þar á meðan. Þetta er hluti af því sem mér finnst svo skemmtilegt í starfinu,  Það skiptir í raun engu máli hvar þú ert í heiminum svo lengi sem ég er með góða tölvu og hraða nettengingu. Ég vinn til dæmis mikið heima og það munaði mig miklu á fá inn ljósleiðara.

Þegar ég vinn ekki heima vinn ég í Þekkingarsetrinu sem mér finnst líka frábært enda flott vinnuaðstaða og virkilega gaman að hitta allt yndislega fólkið sem vinnur þar. En það hentar líka ótrúlega vel að hafa sveigjanleikann til að vinna heima þegar maður er með lítil börn. Mér finnst gott að vera til staðar þegar þau koma heim úr skólanum eða eru úti að leika. Þetta eru atriði sem eru mikilvæg fyrir fjölskyldufólk“ segir Þórey.

Guðbjörg segir samband við fyrirtækin í Bretlandi og Danmörku mest í gegnum tölvur og síma. „Kannski kemur að því að maður fari út en ég hef lítið verið að sækja í það,“ segir Guðbjörg.

Verslunin í Bretlandi flaggskipið

„Verslanirnar í Danmörku voru opnaðar 2014 og 2015 og gengur mjög vel á þeim markaði, við vorum með tvær verslanir en erum núna bara með eina verslun á Sværtegade. Verslunin í Bretlandi var opnuð 2022 en hún er flaggskipið okkar í Evrópu. Danmörk er kannski tengdari okkur Íslendingum en í Bretlandi erum við kannski meira að koma inn með nýtt merki. Það hefur kostað mikla vinnu og markaðsdeildin hefur unnið mikið og gott starf við að koma okkur á framfæri. Þannig að þetta er allt að koma og gengur mjög vel,“ segir Guðbjörg.

„Auðvitað hef ég metnað fyrir því að þetta gangi vel en það er svolítið erfitt koma því á framfæri þegar maður er bara í bókhaldinu. Það er gaman að segja frá því að um daginn vorum við með sýnishornasölu í Danmörku og það var komin 200 metra biðröð klukkutíma áður en við opnuðum. Sýnir að við erum orðin ótrúlega stór í Danmörku.

Líka komin á gott skrið í Bretlandi þar sem við erum með flaggskipið okkar, nýju verslunina á Regent Street. Erum líka í  þekktum verslunum eins og Harrods og END. Vorum með pop-up í Selfridges sem eru á meðal helstu tískuverslana í London. Erum meðal annars inni í Illum í Danmörku og á fleiri stöðum. Við erum að stækka, verða sýnilegri á erlendum mörkuðum og framtíðin er spennandi með frábæru teymi.“

Þjónusta breska herinn

„NAAFI þjónustar herstöðvar út um allan heim meðal annars í Asíu, Miðausturlöndum, Falklandseyjum og Gibraltar. Mikið er lagt uppúr því að þau sem starfa fyrir herstöðvarnar geti fengið svipaða þjónustu og heima á Bretlandi. NAAFI þjónustar einnig hluta af skipaflota sjóhersins sem geta ekki siglt nema hafa kost, “ segir Þórey. „ Þetta eru stór flugmóðurskip með mikla þjónustu meðal annars veitingastaði, keilusali, pöbba og kvikmyndahús.“

Þórey segir erfitt að segja hvað starfsemi NAAFI nái til margra. „Höfuðstöðvarnar eru í Bretlandi. Megin þjónusta okkar er við þá sem starfa þar. En umfang starfseminnar er auðvitað töluverð þar sem herstöðvar eru út um allt og fjöldi skipa með stórum áhöfnum þannig að umfangið er talsvert. Þau sem njóta þjónustunnar eru hermennirnir og fjölskyldur þeirra. Hlutverk NAAFI er að fólkinu líði sem best (Home away from home),“ segir Þórey og það er virkilega gaman að geta sagt að við hjálpum til héðan frá Íslandi.“

Vörur um allan heim

„Vefsalan hjá okkur er alltaf að aukast og hefur vaxið margfalt síðan fyrir Kóvid,“ segir Guðbjörg. „Við erum að senda vörur út um allan heim og á ótrúlegustu staði. Seljum íslenskan útivistarfatnað til landa þar sem hitinn er kannski 20° og maður spyr sig; af hverju að kaupa útivistarfatnað frá kalda Íslandi? Ótrúlegt hvað litla landið okkar teygir anga sína víða og ég er ekki viss um að Hans Kristjánsson hafi séð þetta fyrir sér þegar hann stofnaði fyrirtækið á Suðureyri við Súgandafjörð árið 1926.“

Græða tíma

Það er fátt íslenskara en ÁTVR og er það eitt af fyrirtækjum sem Þórey þjónustar. „Höfuðstöðvarnar eru í Reykjavík en Vínbúðirnar eru út um allt“

Veistu hverjir drekka mest á landinu? „Nei, segir Þórey og hlær. „En það er örugglega ekki mest í Vestmannaeyjum.“

Hverjir eru helstu kostir við það að búa og vinna í Vestmannaeyjum?

„Ég græði einn og hálfan til tvo klukkutíma á dag,“ segir Þórey. „Ég bjó á Völlunum í Hafnarfirði og var stundum þrjú korter að koma mér í vinnuna í Reykjavík. Svona er lífið á höfuðborgarsvæðinu.“

„Það er sama hjá mér, tíminn. Kjarninn af fólkinu mínu er hér og stundirnar með þeim og vinunum er meiri,“ segir Guðbjörg. „Í Reykjavík tekur allt svo langan tíma, fólk er upptekið og lítið gert nema að það sé helst löngu planað.

Fyrir utan það finnst mér dásamlegt að eiga tvo vinnustaði. Get farið til Reykjavíkur og unnið á skrifstofunni okkar í Miðhrauni, drifið mig á árshátíð og haft gaman með fólkinu mínu þar. Hér er svo þetta dásamlega fólk á Þekkingarsetrinu, hinn vinnustaðurinn minn, sem alltaf er til í að gera eitthvað skemmtilegt. Ég hefði aldrei enst í þessari fjarvinnu ef ég væri bara að vinna ein heima – það er svo gott að hafa félagsskapinn.“

Vill fá fleira fólk

Í Vestmannaeyjum vinnum við þrjú fyrir Advania og fluttum við í Þekkingarsetrið í október 2023. „Mér finnst gott að vinna hérna og vera í kaffinu og spjallinu. Mér finnst líka gott að vinna heima þannig að vinna hér og að heiman eftir hentisemi hentar mér frábærlega.

Ég vil endilega fá fleiri til að vinna með okkur hér í eyjum endilega sækja um hjá Advania, það sakar aldrei að sækja um, allskonar störf hjá Advania þar sem ýmis konar menntun og starfsreynsla nýtist. Mér finnst kynjahlutfallið á Eyjaskrifstofunni ekki í jafnvægi tveir karlar ein kona, það er nú ekki hægt,“ segir Þórey og hlær.