Kvenfélagið Heimaey hélt í dagsferð til Eyja sl. 10. júní auk þess að afhenda fimm bekki sem settir voru upp í sambandi við verkefnið „Brúkum bekki” sem er samfélagsverkefni Félags sjúkraþjálfara til að hvetja til aukinnar hreyfingar. Þær Anna Hulda Ingadóttir og Ólöf Aðalheiður Elíasdóttir, ásamt Félagi sjúkraþjálfara og Vestmannaeyjabæ, sáu til þess að verkefnið rataði til Eyja.  

„Kvenfélagið varð sjötíu ára á árinu og er gjöfin veglegri en ella í tilefni þess, og í tilefni að nú sé liðin hálf öld frá goslokum. Bekkjunum verður komið fyrir á um 250 metra millibili á kílómeters langri leið” segir Hrefna Hilmisdóttir, formaður félagsins. „Við vonum að þetta verði hvatning til útivistar og hreyfingar, og þá sérstaklega fyrir fólk sem ekki treystir sér að ganga langa leið án þess að hvíla sig og setjast niður” bætir hún við.  

„Það var svo gaman að koma til Eyja og við fengum glaða sólskin. Þegar við komum á Elló þá beið hann Jarl eftir okkur tilbúinn með gítarinn og lét sem hann hafi haldið að það myndi vera kór á staðnum, en svo var ekki þannig hann stofnaði kór úr okkur konum sem stilltu sér upp til að syngja með honum. Dóra vinkona, sem er í 49. árgangi eins og ég, var svo fyrirhyggjusöm að taka með sér sönghefti sem árgangurinn okkar hefur notað í mörg skipti svo við sungum helling upp úr heftinu og þjóðhátíðarlög sömuleiðis. Það gæti bara vel verið að einhverjar konur stofni Kór Kvenfélagsins þegar við hittumst næst” segir Hrefna.  

Kvenfélagskonur gerðu sér dagsferð til Eyja í júní, ásamt því að afhenda bekki.

Árgjaldið 15 krónur 

Upphafið að stofnun Kvenfélagsins Heimaey var er frú Jónína Jónsdóttir bauð nokkrum konum frá Vestmannaeyjum heim til sín að Seljavegi 25 í Reykjavík. Ræddu þær m.a. um hvað það væri leiðinlegt að konur frá Eyjum hittust sjaldan. Þyrfti helst að stofna félag fyrir konur frá Vestmannaeyjum og þær sem hefðu verið búsettar þar. Þær ákváðu því að boða til stofnfundar 9. apríl 1953, í félagsheimili V.R. Fyrsti stofnfundur var svo haldinn þann dag, félag stofnað og kosin stjórn. 

Jónína Jónsdóttir setti fundinn. Kosin var fyrsta stjórnin og í henni voru: formaðurinn sem var Kristín Ólafsdóttir, ritari var Huld Kristmannsdóttir, gjaldkeri Stella Eggertsdóttir og meðstjórnandi Stella Guðmundsdóttir. Ritari fyrsta fundar var Selma Antoníusardóttir. Það voru 38 konur sem sátu fundinn og árgjald var ákveðið 15 krónur. 

Fyrsta fundargerð Kvenfélagsins Heimaey frá árinu 1953.
Stella Guðmundsdóttir er ein eftirlifandi af fyrstu stjórn Kvenfélagsins Heimaey og auk þess elst núlifandi félagskvenna, en hún varð hundrað ára sl. 29. júlí. Hún var gift leikaranum Róberti heitnum Arnfinnssyni. Stella er flink í höndunum og er t.a.m. heiðursfélagi í myndlistarfélagi Myndlistarskóla Kópavogs.

Styrkt sjúka og efnalitla 

Aðalmarkmið félagsins voru líknarstörf, það að styrkja sjúka og efnalitla, en einnig hafði félagið þann tilgang að konur frá Vestmannaeyjum hittust, kynntust og skemmtu sér. Greinilegt er á fundargerðarbókum frá þessum tíma að mesta áherslan hefur verið lögð á fjáröflun og voru basarar ein af helstu tekjuöflunarleiðum félagsins. Unnu þá konurnar ýmislegt sem þar var selt, svo sem prjónaða barnaboli. Basarar sem áður var árviss viðburður er nú aflagður. Í dag koma tekjur félagsins frá árgjaldinu og jólahappdrætti félagsins.  

Kvenfélagið í gosinu 

Félagið hefur fyrst og fremst einblínt sér að því að styrkja þá sem eiga í erfiðleikum vegna veikinda, og þá sérstaklega börn. Einnig að færa sjúkum og öldruðum á Stór- Reykjavíkursvæðinu glaðning fyrir jólin. Kvenfélagið Heimaey vann mikið sjálfboðaliðastarf þegar eldgosið í Heimaey stóð yfir árið 1973. Um leið og það fréttist að búið væri að opna Hafnarbúðir til afnota fyrir Vestmannaeyinga voru þær komnar af stað til að útvega eitthvað matarkyns, brauð, álegg, kaffi o.fl. Þarna voru Heimaeyjarkonur til staðar meðan mestu ósköpin gengu yfir. Það var ekki bara matur og kaffi sem þær hresstu fólkið með, en það var ekki síður hlýja þeirra og umhyggja sem fólk þurfti á að halda. Að jafnaði unnu um 140 konur á viku í Hafnarbúðum. 

Ómissandi þáttur í starfi félagsins var Lokakaffið þar sem félagskonur héldu kaffiveislu fyrir Vestmannaeyinga. Dagsetningin var miðuð við lokadag vetrarvertíðar, 11. maí. Þessi þáttur í starfi félagsins er nú aflagður. Félagið hélt á árum áður margar árshátíðir og sérstaklega var vandað til afmælishátíða. Sumarferðalögin, sem farin eru árlega, dags- eða helgarferðir, eru ómissandi og svo hafa konur líka nokkrum sinnum skroppið út fyrir landsteinana. 

Þessar mæta á hvern einasta fund í sínu fínasta pússi og eiga það allar sameiginlegt að hafa verið lengi vel í félaginu. Frá hægri er Gerður Tómasdóttir, Hjördís Guðmundsdóttir, Pálína Ármannsdóttir og Stella Sigurðardóttir.
Núverandi stjórn Kvenfélagsins Heimaey. Frá vinstri er Katrín Gunnarsdóttir frá Ásgarði, Hrefna Hilmisdóttir frá Vatnsdal og Ásta Kjartansdóttir dóttir Kjartans fisksala.

Ekkert kynslóðabil þegar unnið er að góðum málefnum 

„Það hefur alltaf ríkt góður andi í félaginu og það er engin deyfð á fundum. Ánægjulegt þykir að yngri konur sýni félaginu áhuga enda ekkert kynslóðabil til þegar unnið er að góðum málefnum og gefandi samveru. Vinkonur, saumaklúbbar og frænkur njóta þess að hittast á fundum um leið og þær láta gott af sér leiða. Í dag eru 200 konur skráðar í félagið sem njóta þess að koma saman, spjalla og endurnýja kynnin yfir góðum mat í huggulegu umhverfi” segir Hrefna.