Nú er ljóst að kvennalið ÍBV í handbolta er komið í sumarfrí eftir að hafa tapað í þrígang fyrir Val í undanúrslitum. Þriðji og síðasti leikurinn fór fram í kvöld á Hlíðarenda og lauk 30:22. Enn liggur ekki fyrir hvort andstæðingur Vals verði Haukar eða Fram. Hugsanlega skýrist það á morgun þegar Framarar og Haukar mætast þriðja sinni.

Valur var marki yfir í hálfleik, 12:11, á heimavelli í kvöld. ÍBV komst yfir snemma í síðari hálfleik, 13:14, og virtist ætla að sauma að Valsliðinu. Sú varð ekki raunin. Valsliðið svaraði með fimm mörkum í röð, 18:14. Aftur nálgaðist Eyjaliðið en hafði ekki erindi sem erfiði og niðurstaðan átta marka tap.

Mörk ÍBV: Birna Berg Haraldsdóttir 7, Karolina Olszowa 4, Sunna Jónsdóttir 4, Þóra Björg Stefánsdóttir 4, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 1, Elísa Elíasdóttir 1, Ásdís Guðmundsdóttir 1.
Varin skot: Marta Wawrzykowska 11.