Umhverfis- og skiplagsráð Vestmannaeyja tók fyrir umsókn um byggingarleyfi á sólskála við Kirkjuveg 21, en þar er rekinn skemmtistaðurinn Lundinn.
Málið var tekið fyrir að lokinni grenndarkynningu, breyting á deiliskipulagi Austurbæjar, norðurhluti vegna viðbyggingar sólskála á suð-austur hlið. Fram kemur í fundargerð að umsögn Minjastofnunar Íslands liggi fyrir.
Fjórar athugasemdir bárust vegna málsins frá fasteignaeigendum að Vestmannabraut 8, 11, 13a og 13b. Athugasemdirnar felast að mestu í mótmælum við viðbyggingunni vegna áhyggjum af auknum hávaða.
Erindið samþykkt
Í greinagerðinni segir að athugasemdir vegna viðbyggingar sólskála við Kirkjuveg 21 feli að mestu í sér mótmæli byggingarinnar vegna hættu á auknum hávaða frá skemmtistaðnum sem þar er rekinn.
Einnig kemur fram óánægja og athugasemdir vegna núverandi hávaðamengunar, veisluhalda á Þjóðhátíð og samskiptum við rekstraraðila. Greinagerðin er takmörkuð við athugasemdir sem snúa að viðbyggingu sólskálans.
Greinagerðin birtir samantekt með bútum úr innsendum athugasemdabréfum og svörum við þeim, til að fá fullt yfirlit yfir athugasemdir er vísað í að lesa bréfin sjálf.
Í niðurlagi greinargerðarinnar segir að lóðarhafi vilji koma því til skila að endurbætur hafa verið gerðar síðustu ár til að draga úr að hljóð berist frá húsinu. Þar á meðal hafa allir veggir verið einangraðir á bakhlið og gamlir gluggar og hurðarop fjarlægð. Einnig var nýtt hljóðkerfi sett í húsið fyrir nokkru síðan sem hefur dregið úr hljóðmengun frá staðnum.
Til stendur í komandi framtíð að gera breytingar á núverandi svölum og minnka umgang á þeim og þar af leiðandi minnka óþarfa ónæði sem getur skapast frá þeim.
Í niðurstöðu umhverfis- og skipulagsráðs segir að ráðið samþykki erindið og felur skipulagsfulltrúa að svara innkomnum athugasemdum sbr. greinagerð skipulagsráðs. Málinu var vísað til bæjarstjórnar.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst