„Allt á sinn tíma og höfum við nú ákveðið að hætta í júní 2025, þá verða þetta orðin rúm 30 ár. Reksturinn hefur samt sjaldan gengið betur, best að hætta à toppnum og þannig viljum við hafa þetta. Auðvitað væri gaman ef einhver vildi taka við rekstrinum. Það er alveg mögulegt að leigja húsnæðið áfram og kaupa eða leigja reksturinn af okkur. Þetta er einstakt tækifæri fyrir fólk með áhuga á líkamsrækt og rekstri að láta drauminn rætast. Upphafið að stofnun Hressó er að við systur bjuggum á höfuðborgarsvæðinu og vorum mjög duglegar að æfa í nýrri líkamsræktarstöð, Stúdíói Jónínu og Ágústu sem seinna varð Stúdíó Ágústu og Hrafns og nú Hreyfing. Við æfðum á hverjum degi og fannst þetta hrikalega skemmtilegt,“ segir Jóhanna Jóhannsdóttir sem ásamt Önnu Dóru, systur sinni opnaði Líkamsræktarstöðina Hressó þann sjötta janúar 1995. Varð Hressó fljótt ein af stoðum samfélagsins í Vestmannaeyjum.
Líkamsrækt var ekki óþekkt í Vestmannaeyjum en það var engin líkamsræktarstöð með tækjasal og hóptímum. „Við ákváðum því að verða frumkvöðlar í Eyjum og Hressó varð til. Pabbi átti húsnæðið sem var netageymsla sem ekki var notuð. Við fengum húsnæðið og innréttuðum sem líkamsræktarstöð og hér erum við enn að þrjátíu árum seinna. Við Fengum frábærar viðtökur strax í upphafi og erum ótrúlega þakklátar öllu því fólki sem farið hefur hér í gegn. Það er ákveðinn kjarni sem hefur verið hjá okkur allan tímann sem er örugglega mesta viðurkenningin á að við höfum verið að gera vel,“ segir Jóhanna og minnist góðra tíma strax í upphafi þegar starfsemin var eingöngu á annarri hæðinni
Mikið líf og fjör
„Við byrjuðum með fjölbreytta stundaskrá fulla af opnum tímum og einnig með svokölluð fitubrennslunámskeið. Við fylltum tvö og ég held að 292 kíló hafi runnið af fyrsta hópnum. Síðan höfum við boðið upp fjölbreytta tíma og námskeið sem hafa þróast með því sem vinsælt er à þessu sviði í heiminu. Sumt sem við tókum inn var mjög dýrt og viðskiptalega séð kannski ekki besta hugmynd í heimi. Metnaðurinn var alltaf mikill. Vildum hafa það nýjasta og besta og það varð að vera gaman hjá okkur. Það var okkur alltaf mikilvægara að hafa skemmtilegt heldur en að sjá gróða. Enda er Hressó ein besta félagsmiðstöð sem völ er á. Hér eru allir í góðu skapi, heitt á könnunni og mörg málefni rædd.“
Á Hressó eru hópar sem halda saman. Þar er morgunhópurinn hennar Önnu Lilju einna sterkastur undir stjórn Drífu Kristjánsdóttur. Sà hópur byrjaði snemma með sína eigin árshátíð og í seinni tíð hafa þau farið í ferðir upp á land og til útlanda. „Forest hópurinn hennar Önnu Dóru var líka einstaklega uppàtækjasamur. Farið í siglingar, búið til bíómynd, svo fàtt eitt sé nefnd. Crossfiteyjar er sérhópur sem hefur farið saman í útivistarferðir. Nýjasti hópurinn er líklega Freyjurnar, lyftingar klúbbur fyrir konur. Þær halda lyftingardag til að hámarka þyngdir og fara út að borða saman. Svo má ekki gleyma árshátíðunum sem alltaf voru mjög vel heppnaðar og vel sóttar. Framan af ein stærsta skemmtun vetrarins í Vestmannaeyjum og þó víðar væri leitað,“ segir Jóhanna.
Miklar breytingar
í upphafi byggðist starfsemin upp á Aerobic og pallapúli ásamt lokuðum námskeiðum. Svo kom Spinning, urðum að vera með því það varð strax mjög vinsælt. Leigðum herbergi á neðri hæðinni til að geta haft sér stað fyrir spinning. Seinna keyptum við þriðju hæðina þar sem við innréttuðum m.a. hjólasal. Á tímabili urðu svokölluð Les Mills prógrömm mjög vinsæl, Body pump, Body step og Body Combat. Líka Zumba, Tai bó, karate, og fleira hefur verið í boði í gegnum tíðina. Við höfum boðið upp á Alls komar útinámskeið og jafnvel námskeið með sálfræðilegu ívafi til sjálfsstyrkingar.“
Í dag er Pallapúlið horfið og það eru allt öðruvísi æfingar í boði, t.d. crossfit, lotuþjálfun og tabata. Yoga hefur einnig komið sterkt inn á síðustu árum. „Margir æfa á eigin vegum og tækjasalurinn er miklu meira notaður. Við höfum mætt þróuninni, erum á þremur stöðum, Stóra Hressó, Litla Hressó í Íþróttamiðstöðinni að ógleymdu Crossfittinu hjá Gilla. Á Stóra Hressó erum við með flottan tækjasal, jógasal og rúmgóðan hóptímasal.
Fólk kann að meta þetta og hafa viðskiptavinir aldrei verið fleiri. Það nýjasta er í rauninni netþjálfun en margir eru nú með æfingarnar sínar í símanum sínum. Samsetning viðskiptavina hefur líka breyst mikið með árunum. í upphafi sáum við varla manneskju af erlendum uppruna en útlendingar eru nú um 30% til 40% af viðskiptavinum okkar. Þeir æfa flestir sjálfir í tækjasalnum og eru góðir í því, en nokkrir sækja yoga eða hóptíma og nokkrir stunda einnig crossfit. Þetta eru frábærir viðskiptavinir á allan hátt.“
Tímamót
Anna Dóra og Jóhanna seldu húsið á síðasta ári og eru með leigusamning til 30. júní á næsta ári. Það verður endapunkturinn á Hressó í þeirra eigu. „Við hættum á toppnum en vonum að einhver sjái þetta einstaka tækifæri og nýti sér það. Reksturinn er til sölu eða leigu og við hvetjum áhugasama til þess að hafa samband.“
Hvað finnst þér standa upp úr? „Þakklæti til fólksins sem hefur gert okkur kleift að vinna við það skemmtilegasta í heimi. Við höfum náð að vaxa og dafna sem má þakka frábærum viðskiptavinum. Þá eiga kennararnir okkar og starfsfólkið hér sinn þátt í velgengninni, hver öðrum betri og skemmtilegri.
En auðvitað er árangur góðra viðskiptavina stóri vinningurinn og það sem gefur mest. Við höfum séð fólk hér sem hefur náð að breyta algjörlega bæði líkamlegri og andlegri heilsu. Við sjáum líka á okkar bestu viðskiptavinum sem hafa verið með okkur frá upphafi og eru því komnir í seinni hálfleikinn að þeir standa mun betur að vígi en jafnaldrar þeirra sem ekki æfa.“
Að lokum vildi Jóhanna koma á framfæri að nú er síðasta árið þeirra á Hressó runnið upp. „Þetta er síðasti mánuðurinn sem við seljum árskort svo teljum niður í mánuðum. Nú fara síðustu sumarkortin okkar í sölu. Einstakt tilboð til allra sem ætla að vera hér í sumar. HressóKort sem gildir út ágúst á 34.900 kr. og Crossfit kort á 44.900 kr. Hressókortin gilda bæði í Litla, Stóra Hressó og sund. Crossfit kortin gilda Í Litla, Stóra Hressó og sund àsamt Crossfiteyjum. Þetta er því snilldardíll sem gott er að nýta sér sem fyrst,“ sagði Jóhanna að endingu.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst