Hópurinn Heimaklettur á Facebook telur nú tæplega 13.500 meðlimi eða rétt þrefalda íbúatölu Vestmannaeyja. Flestir sem eru í hópnum búa á Íslandi en þar er einnig fólk sem býr erlendis og sumt langt í burtu eins og í Ástralíu. Hópurinn var stofnaður 18. júlí 2012 af Ólafi Guðmundssyni, sem oftast er kallaður Óli. Hann hefur stjórnað síðunni ásamt bræðrum sínum þeim Halldóri Inga og Bjarna Ólafi.
„Það má segja að hugmyndin að Heimakletti hafi kviknað í hópi nokkurra frændsystkina frá Bólstaðarhlíð. Við vorum spjalla um þetta ég og systurnar Dóra Björk og Gerða Jónsdætur Björnssonar og Rúnar Þórarinsson sonur Perlu Björnsdóttur. Þau vildu samt ekki koma nálægt þessu svo ég stofnaði hópinn einn míns liðs,” segir Óli. Hann er sonur hjónanna í Hákonarhúsi við Kirkjuveg 88, þeirra Guðmundar Hákonarsonar og Halldóru Kristínar Björnsdóttur frá Bólstaðarhlíð. Ólafur var fjórði í röð sjö systkina sem voru Björn Bjarnar (f. 1941, d. 2015), Halldór Ingi (f. 1946), Guðmundur (f. 1950), Ólafur (f. 1952), Eygló (f. 1956), Bjarni Ólafur (f. 1963) og Þröstur (f. 1965). En hvers vegna nafnið Heimaklettur?
„Mér finnst Heimaklettur vera svo mikið Vestmannaeyjar. Það eru til félög sem heita Heimaklettur en það hefur ekkert truflað þennan hóp,” segir Óli. Hann byrjaði á að bjóða Facebook-vinum sínum í hópinn og svo fór boltinn að rúlla. Í hópnum voru 5.930 manns þann 7. mars 2015 og 28. mars 2019 voru þeir orðnir 10.000. Eðlilega hafa einhverjir horfið úr hópnum, aðallega yfir móðuna miklu, í tímans rás.
Hópurinn er undir daglegu eftirliti
„Mér fannst að þarna þyrfti að vera fólk frá Vestmannaeyjum, fólk sem á ættir að rekja til Eyja og aðrir velunnarar Vestmannaeyja,” segir Óli. „Ég setti inn alla sem voru vinir mínir á Facebook og bauð þeim að vera með. Þeir þurftu að óska eftir aðild því það þarf að samþykkja alla sem vilja vera í hópnum. Ég hef neitað gríðarlega mörgum um aðild. Það eru aðallega útlendingar, án nokkurra tengsla við Vestmannaeyjar, sem mig grunar að ætli sér að nota síðuna til að dreifa einhverjum óþverra. Ég fer inn á Heimaklett nokkrum sinnum á dag og fylgist með. Ef ég sé fólk gera eitthvað sem ég vil ekki sjá á síðunni þá hendi ég því út án viðvörunar.”
Óli segir að það vanti fleira ungt fólk í hópinn Heimaklett en meiri hlutinn er eldra fólk. Hann bindur vonir við að yngra fólkið sláist í hópinn þegar það eldist, stofnar fjölskyldu og fer að eignast börn. Þá fer það að hugsa öðruvísi um lífið og tilveruna og fær áhuga á sögunni og ættfræðinni.
Óli vissi hvernig umræður gátu þróast á Facebook og endað í tómri vitleysu. Hann ákvað því að setja einfaldar reglur fyrir hópinn Heimaklett. Þar má ræða allt innan almennra velsæmismarka nema trúarbrögð og pólitík. En hvað er mest rætt?
Vinsælt að fá upplýsingar um gamlar myndir
„Fólk er mikið að spjalla um ljósmyndir, stundum eldgamlar, sem koma inn og svo er fólk stundum að spyrja um tiltekin hús eða einstaklinga og þá koma svör frá öðrum í hópnum. Áki Heinz Haraldsson, sem starfaði lengi hjá Vestmannaeyjabæ, er mikill fróðleiksbanki og kemur með mikið af upplýsingum þarna inn. Hann virðist vita allt um húsin í bænum og íbúana og er ótrúlega glöggur á fólk sem hefur búið í Eyjum. Ég hef ekki tölu á öllum myndunum sem eru á Heimakletti en þær eru orðnar mjög margar,” segir Óli.
Hann nefnir að Ljósmyndasafn Vestmannaeyja hafi nýtt Heimaklett til að afla upplýsinga um fólk á gömlum myndum, m.a. úr safni Óskars Björgvinssonar ljósmyndara sem lengi rak ljósmyndastofu í Vestmannaeyjum. Óskar tók m.a. myndir af fermingarbörnum sem nú eru orðin harðfullorðið fólk og þarf að nafngreina til að varðveita heimildina. Halldór B. Halldórsson myndasmiður hefur líka verið mjög duglegur að setja inn nýjar myndir.
„Það er gríðarlega mikill fróðleikur samansafnaður á Heimakletti. Ef menn tækju það saman væri hægt að gera góðan doðrant með öllum þeim fróðleik og myndum sem ná allt aftur á 19. öld,” segir Óli. Elsta myndin á síðunni er þó ekki ljósmynd heldur teikning eftir enskan listamann sem heimsótti Eyjarnar á 19. öld. Frummyndin mun vera til á Byggðasafni Vestmannaeyja að því er Óli veit best.
Margir hafa birt myndir af götum og húsum á svæðinu sem fór undir hraun í eldgosinu 1973. Svo safnast inn upplýsingar um hvað þessi eða hin gatan hét og hverjir bjuggu í hverju húsi í þessari veröld sem var en er nú horfin. „Það verður gaman að sjá hvað kemur undan hrauninu ef því verður mokað burt næst miðbænum. Sjálfsagt eru húsin ónýt, bæði kramin og soðin eftir hraunið en Eyjamenn ættu að fá þarna gott byggingarland,” segir Óli.
Fór snemma að vinna í fiski
Óli bjó í Vestmannaeyjum í 30 ár, það er frá fæðingu 1952 og til 1982 að hann flutti upp á land. Hann fór snemma að vinna með skóla og á sumrin eins og tíðkaðist í Eyjum. Að lokinni skólagöngu fór hann að vinna í Vinnslustöðinni. Var þar m.a. verkstjóri og vélgæslumaður í vélflökuninni. „Það vantaði ekkert upp á að það var nóg að gera. Ég byrjaði áður en tölvuvæðingin hófst og allar skýrslur voru handskrifaðar. Mig rámar þó í að ég hafi verið kominn með einhverja tölvu undir það síðasta,” segir Ólafur.
Ólafur átti húsið Sólheimatungu við Brekastíg 14 og bjó þar. Við hliðina bjó Sigmúnd Jóhannsson teiknari og uppfinningamaður. Ólafur eignaðist allar bækurnar með teikningum Sigmúnds og þurfti ekkert að suða til að fá áritun listamannsins í bækurnar. „Hann var þakklátur fyrir gott nábýli þarna við Brekastíginn þótt stundum væri spiluð hávær tónlist. Það kom fyrir eftir böll að ég setti út hátalara og spilaði góða tónlist,” segir Óli.
Einlægur aðdáandi Rolling Stones
Á þeim árum sem Óli var unglingur skiptust Eyjamenn gjarnan í tvær fylkingar, Þórara og Týrara eftir því hvort íþróttafélagið þeir studdu. „Ég var alltaf Þórari,” segir Óli ákveðið. Unga fólkið skiptist líka í fylkingar eftir því hvort The Beatles eða The Rolling Stones voru í meira uppáhaldi. Ríkisútvarpið, eina íslenska útvarpsstöðin, spilaði stundum dægurlög en í Eyjum var líka hægt að hlusta á Radio Luxembourg og sjóræningjastöðina Radio Caroline þar sem nýjustu dægurlögin voru spiluð allan sólarhringinn. Sigurbergur Hávarðsson útvarpsvirki, Bebbi, seldi nýjustu plöturnar í verslun sinni við Skólaveginn. Þar voru nýjustu plöturnar rifnar út þegar krakkarnir fengu útborgað á föstudögum.
„Rolling Stones voru í uppáhaldi hjá mér, eru enn og verða alltaf. Það er enginn spurning,” segir Óli. „Bibbi hans Valla Snæ (Friðbjörn Ólafur Valtýsson) var ókrýndur konungur Rolling Stones aðdáenda í Eyjum. Guðmundur bróðir var og er líka Stónsari auk margra fleiri.” Aðspurður segir Óli að hann hafi aldrei farið á tónleika með Rolling Stones og yfirleitt ekki á neina tónleika nema Eyjatónleikana sem Bjarni Ólafur bróðir hans hefur staðið fyrir með miklum myndarskap um árabil. Óli hefur þurft að sleppa tónleikaferðum síðustu tvö ár vegna þess að höfuðið þolir ekki lengur háværa tónlist.
„Ég var að vinna í Kassagerðinni í Reykjavík þegar gosið byrjaði 23. janúar 1973 því það hafði ekkert verið að gera í Eyjum. Fjölskyldan kom upp á land. Ég fór svo með pabba til Eyja til að sækja búslóðina að Kirkjuvegi 88, þar sem við áttum heima. Það kom vörubíll og áttum við að setja búslóðina á pallinn. Pabbi sætti sig ekki við það og vildi fá gám. Það hafðist og þegar við fengum gáminn og við vorum búnir að pakka öllu saman passaði að taka glugga úr á efri hæðinni og taka dótið þar út. Vikurinn var orðinn svona þykkur.
Það var mötuneyti í Gagnfræðaskólanum. Einu sinni var ég að koma úr mat og rafmagnið var farið. Það sást ekki neitt í myrkrinu þegar ég labbaði niður brekkuna, ekki ein einasta týra. Svartur vikurinn var yfir öllu og það heyrðist heldur ekki neitt. Þetta var mjög undarleg tilfinning. Ég fór svo að vinna í hreinsuninni um haustið við að moka vikrinum úr bænum. Eftir hana fór ég aftur í Vinnslustöðina.”
Óli varð á endanum þreyttur á að vinna í fiski, enda var mikið vinnuálag og oft langir vinnudagar. Hann ákvað að breyta til og flytja til Reykjavíkur 1982. „Ég fór að vinna í varahlutaverslun B&L og það gekk þrumuvel. Svo fór ég að vinna við bílapartasölu sem Guðmundur bróðir minn átti. Hann flutti til Spánar með fjölskylduna árið 2000 og ég reyndi að leita að heilsunni í kjallaranum hjá partasölunni, en fann hana ekki þar. Ég var að hætta daglegri vinnu 2002 vegna heilsubrests.”
Átti mikið vínilplötusafn
Óli safnaði lengi vínilplötum en ákvað svo að láta Val stjúpson sinn fá plötusafnið og henti græjunum og plötuspilaranum sem var orðinn óttalegur ræfill eftir mikla notkun. Tónlistaráhuginn var þó ekki þar með horfinn.
„Ég fékk aftur plötuspilara og magnara og er aðeins byrjaður að hlusta aftur á tónlist. Ég fór aftur að safna vínilplötum og er búinn að yfirfæra þær allar á flakkara og eins DVD diska og geisladiska (CD) og eins allar plöturnar hans Dadda bróður (Bjarna Ólafs). Þetta eru um 120.000 lög en ég er voðalega lélegur að hlusta,” segir Óli. Honum þykir gott að hafa það verkefni að vakta umræðuna á Heimakletti á hverjum degi. Eins er hann duglegur að heimsækja vefinn heimaslod.is og lesa allan þann fróðleik sem þar er að finna. Óla er því líkt farið og mörgum öðrum brottfluttum Eyjamönnum að hugurinn leitar daglega á heimaslóðirnar.
Þessi grein er úr blaði Eyjafrétta – Guðni Einarsson.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst