Mikill kraftur ríkir í framkvæmdum og uppbyggingu í Vestmannaeyjum um þessar mundir, bæði af hálfu sveitarfélagsins og einkaaðila. Á næstu misserum stendur til að ráðast í fjölmörg stór verkefni sem hafa bæði áhrif á innviði bæjarins og atvinnulíf í heild. Við ræddum við Írisi Róbertsdóttur, bæjarstjóra Vestmannaeyja, um hvað væri helst á döfinni, hvernig staðan sé á íbúðamarkaði og hvaða áhrif þessi uppbygging hefur haft á samfélagið í Eyjum.
Að sögn Írisar eru margar stórar framkvæmdir í undirbúningi eða þegar hafnar. Af hálfu sveitarfélagsins má helst nefna viðbyggingu við íþróttahúsið, endurnýjun á Gjábakkakanti, ásamt lagningu gervigrass og flóðlýsingu á Hásteinsvelli. Þá hafi nú þegar verið kynnt fjölmörg viðhaldsverkefni.
En það eru ekki einungis bæjaryfirvöld sem standa í framkvæmdum. Íris bendir á að einkaaðilar séu einnig að byggja töluvert, bæði atvinnuhúsnæði og íbúðir. Þar má nefna stór og metnaðarfull verkefni eins og Landeldið í Viðlagafjöru, Lava Spring baðlón og nýja hótelbyggingu, sem eru ýmist komin af stað eða í startholunum.
Hvernig er framboð af íbúðarhúsnæði að þínu mati? „Mín tilfinning er að staðan sé nokkuð góð, en það vantar kannski helst eignir sem henta fyrstu íbúðakaupendum,“ segir hún og bendir á mælaborð HMS sem góðan upplýsingaveitanda fyrir þá sem vilja fylgjast með þróun húsnæðismála eftir sveitarfélögum. Þegar talið berst að aðgengi að byggingarlóðum segir Íris að eins og staðan sé í dag séu ekki margar lóðir lausar en segir að það líti mun betur út með það sem er í deiliskipulagsferli. Þar má helst nefna Lögnulá, þar sem gert er ráð fyrir um 100 íbúðum, og Miðgerði, sem verður tilbúið á næstu mánuðum.
„Við teljum að þessar lóðir muni duga vel miðað við núverandi húsnæðisþörf, og erum við að fylgja húsnæðisáætlun sveitarfélagsins sem við skiluðum til HMS í lok desember, eins og skylt er að gera ár hvert.“
En hvernig telur Íris að öll þessi uppbygging og framkvæmdir hér í Eyjum hafi haft og muni hafa áhrif á atvinnulíf og efnahag bæjarins?
,,Öll uppbygging hér í Eyjum er mjög jákvæði fyrir okkur sem samfélag, skapar tækifæri ný og ný störf í framhaldinu. Við finnum klárlega fyrir því að mikilvægt er að fjölbreytni í störfum aukist og hefur það verið að raungerast með þessari uppbyggingu,“ segir hún að lokum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst