Eyjamenn unnu frábæran 1-0 sigur í kvöld þegar þeir tóku á móti Stjörnunni í 15. umferð Bestu deildar karla. Fyrri hálfleikurinn var frekar bragðdaufur og lítið um færi. Eyjamenn léku á móti vindinum og beittu skyndisóknum á meðan Stjörnumenn héldu betur í boltann en hvorugt liðið náði að skora.
Síðari hálfleikurinn var svipaður og sá fyrri, lítið um færi en það voru Eyjamenn sem tóku forystuna á 71. mínútu leiksins. Hermann Þór Ragnarsson kom þá með fyrirgjöf frá vinstri kantinum á fjær þar sem Sverrir Páll Hjaltested lúrði og skallaði boltann fyrir markið. Það var svo fyrirliðinn Alex Freyr Hilmarsson sem stangaði boltann yfir línuna. Stjörnumenn reyndu að sækja jöfnunarmark síðustu mínúturnar en Eyjamenn vörðust vel og niðurstaðan því 1-0 sigur heimamanna.
Þetta var afar mikilvægur sigur fyrir Eyjamenn sem eru nú komnir þremur stigum frá fallsæti og sitja í 9. sæti með 18 stig. Stjarnan er áfram um miðja deild með 21 stig.
Næsti leikur ÍBV er útileikur gegn Vestra sunnudaginn 27. júlí kl. 14:00.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst