„Það sem mér hefur fundist skemmtilegast við skólagönguna mína í Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum hefur verið félagsskapurinn,“ segir Embla. „Það er eitthvað sérstakt við það að vera í litlu og vinalegu skólasamfélagi þar sem allir þekkja alla og maður finnur fyrir stuðningi.“ Embla viðurkennir að henni þyki pínu leiðinlegt að vera ljúka þessum kafla í lífinu en er að sama skapi mjög spennt fyrir komandi tímum og tækifærum. Embla tók einnig virkan þátt í félagslífinu og segir það hafa gert skólalífið bæði skemmtilegra og eftirminnilegra. Hún vann og æfði fótbolta samhliða náminu, en tókst að eigin sögn vel að halda jafnvægi á milli námsins og einkalífsins. „Ég lærði að nýta tímann vel, forðast að fresta hlutum og klára verkefni strax frekar en að sitja uppi með stress á síðustu stundu.“ Embla segist hafa notað fótboltann til að ,,slaka á“ frá náminu. Hún notaði hann til að fá útrás og gleyma stressinu. ,,Ég reyndi líka að finna tíma fyrir sjálfa mig og gera það sem mér finnst skemmtilegt,“ bætir hún við.
En hvað tekur við eftir að framhaldsskólanum er lokið hjá Emblu? ,,Ég fór í inntökuprófið í tannlæknisfræði núna í byrjun júní og mér fannst það ganga nokkuð vel, þannig núna bíð ég spennt eftir niðurstöðunum. Það komast 40 efstu inn, svo samkeppnin er mikil. Draumurinn væri að komast inn þar, en ef það gengur ekki upp ætla ég að hefja nám í lífeindafræði við Háskóla Íslands og reyna aftur við tannlæknanámið á næsta ári.“ Segir Embla.
Hvaða ráð myndi Embla gefa öðrum ungmennum sem eru að byrja í framhaldsskóla? ,,Gerðu þitt besta, þú ert ekki að gera þetta fyrir neinn annan en sjálfan þig. Taktu ábyrgð, vertu ekki hrædd/ ur um að biðja um hjálp og reyndu að njóta tímans í skólanum. Taktu þátt í félagslífinu og opnaðu þig fyrir nýju fólki, þessi ár líða ótrúlega hratt og eru dýrmætari en maður heldur“ segir hún að lokum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst