„Haustið er að vanda tími árgangsmóta í Vestmannaeyjum en þau eru að margra mati einstök á landsvísu og þótt víðar væri leitað. Hvert árgangsmótið á fætur öðru hefur verið síðustu helgar og í flestum tilfellum er þetta tveggja daga helgi með tilheyrandi fjöri. Einn af þessum árgöngum sem tók síðustu helgi með stæl í Eyjum voru fyrrum nemendur Barnaskóla Vestmannaeyja sem voru fæddir 1966 en eins og aðrir árgangar hittast þau að jafnaði á fimm ára fresti,“ segir Þorsteinn Gunnarsson, Eyjamaður, borgarritari með meiru um vel heppnað árgangsmót um síðustu helgi.
„Að vanda var vel mætt, skemmtun var í Kiwanis síðasta föstudag og á laugardaginn var hefðbundin óvissuferð og svo endað í kró á Skipasandi. Árgangur 66 er þekktur fyrir almenna lífsgleði og fjörleg árgangsmót og var það samdóma álit undirbúningsnefndar að árgangsmótið í ár hafi toppað þau öll þar. Á meðal þess sem árgangurinn státar af er árgangshljómsveitin Route 66 sem kölluð er súpergrúbba því hana skipa einvalda lið landsþekktra tónlistarmanna. Hljómsveitin hélt uppi stuðinu bæði föstudags- og laugardagskvöld á árgangsmótinu,“ segir Þorsteinn.
Myndatextar:
Árgangshljómsveitin Route 66 skemmti árgangssystkinum sínum í Kiwanis. Frá vinstri: Þorsteinn Gunnarsson, Grimur Gíslason, Páll Pálsson, Jarl Sigurgeirsson, Arnar Jónsson og Eiður Arnarsson.
Undirbúningsnefnd árgangsmótsins: Hörður, Bergsteinn, Arnar, Lilja, Rakel, Kristófer Helgi, Hildur, Heiðrún og Vilborg.
Árgangur 66 í Landakirkju.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst