Heimaey, vinnu- og hæfingarstöð fyrir fólk með fötlun og öryrkja, hefur hætt framleiðslu á ákveðnum tegundum kerta. Stóra kertaframleiðsluvélin, sem lengi hefur verið í notkun, hefur verið tekin úr rekstri. Jón Pétursson, framkvæmdastjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs Vestmannaeyjabæjar, staðfestir þetta í samtali við Eyjafréttir. Hann segir að kertaframleiðslan hafi reynst stofnuninni dýr í rekstri og illa gengið að halda henni sjálfbærri.
„Vélin er orðin gömul og í raun hangið á lyginni, eins og sagt er. Kostnaður við að halda henni við er mikill og lítið þarf að gerast til að hún verði óstarfhæf,“ segir Jón. Kertavélin hafi jafnframt tekið mikið pláss í húsnæðinu, sem nú verði nýtt á annan hátt.
„Við verðum áfram með einhverja kertaframleiðslu, þ.e. útikerti og svokölluð kubbakerti, sem taka minna pláss við framleiðslu,“ segir hann. Starfshópur hefur verið að vinna að endurskoðun á starfsemi Heimaeyjar og samkvæmt Jóni verður meiri áhersla lögð á hæfingar- og dagþjónustuhlutann í framtíðinni.
„Til þess þarf að breyta innra rými stofnunarinnar. Hluti vinnslusalarins verður nýttur og hlutaður niður í rými fyrir hæfingu og dagþjónustu. Stóra kertavélin hefur hingað til tafið það ferli,“ segir Jón að lokum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst