Jóhanna Jóhannsdóttir hefur alla tíð verið haldin ástríðu fyrir hreyfingu, heilsu og vellíðan. Hún byrjaði ferilinn í jazzballett en áhuginn þróaðist fljótt yfir í alhliða líkamsrækt, líkamlega og andlega heilsu og kennslu.
Þegar eróbikk var nýtt á Íslandi fann hún sína hillu og heillaðist af algjörlega, hún lærði hún eróbikk í bílskúrnum hjá Ingveldi Gyðu aðeins 14 ára gömul og þar kviknaði neisti sem hefur logað síðan. Á eftir fylgdu fjölmörg námskeið og fór hún einnig í starfsnám í dansstúdíó Sóleyjar sem var mjög vinsælt á þeim tíma. Svo flutti hún til Reykjavíkur og hugsaði með sér að það gæti verið gaman að vera líkamsræktar þjálfari, en taldi sig þó ekki vera í nógu granna til að geta gert það, sem hún segir vera fáranlega hugsun í dag. Systir hennar var fljót að sannfæra hana um að hún gæti alveg farið á þetta eins og allir aðrir og Jóhanna sló til.
Það var svo einn daginn þegar Jóhanna og Anna Dóra systir hennar voru í ræktinni í Reykjavík að þær fengu hugmyndina um að opna líkamsræktarstöð í Vestmannaeyjum. Pabbi þeirra átti tómt iðnaðarhúsnæði í Eyjum og þær ákváðu að hoppa á tækifærið. Í framhaldi af þessari ákvörðun, hugsaði Jóhanna með sér að það væri gott að hafa íþróttakennarann með þessu. Hún skellti sér því í íþróttakennaraskólann á Laugarvatni, kláraði hann og flutti svo til Eyja aftur til þess að opna líkamsræktarstöðina Hressó 1995 sem starfrækt var í 30 ár. Jóhanna hefur alla tíð fylgst með nýjustu stefnum og straumum í heilsu og hreyfingu og sótt fjölmörg námskeið og réttindi. í dag miðlar hún reynslu sinni meðal annars í gegnum föstunámskeið, þar sem andleg og líkamleg heilsa mætast.
Hvað vakti áhuga þinn á föstu og hvað fékk þig til að kafa dýpra í það efni?
Föstur hafa verið stundaðar í áraraðir og hafa verið mikið rannsakaðar og ávinningur þeirra talinn mikill. Áhuginn kviknaði fyrst þegar ég var í jógakennaranáminu á sínum tíma. Þar átti ég að fasta til hádegis, en ég gat það ekki, fannst það algjörlega óyfirstíganlegt. Nokkrum árum síðar fór ég að lesa mér betur til og áttaði mig á að þetta snýst fyrst og fremst um andlegan undirbúning og að stilla hausinn rétt. Það var svo þegar covid skall á og allt lokaði ákvað ég að halda mitt fyrsta föstunámskeið, ég var þá sjálf byrjandi. Námskeið var einfalt og í fyrsta skiptið komu fimm manns, en ég hélt námskeiðið engu að síður því ég vildi læra og æfa mig. Í næsta skipti komu tíu, og síðan hefur fjöldinn farið yfir 100 manns og námskeiðið þróast og dafnað. Í dag held ég föstunámskeið þrisvar sinnum á ári, eftir jól, eftir páska og eftir sumarfrí. Þá eru flestir tilbúnir að koma sér í rútínu.
Hvað er fasta, og hvernig virkar hún í líkamanum?
Fasta er miklu meira en margir halda. Hún snýst ekki um að svelta sig eða grennast, heldur er hún hreinsunarferli fyrir líkamann. Í lengri föstum fer af stað ferli sem kallast sjálfsát frumna. Þá byrjar líkaminn að hreinsa út gamlar og skemmdar frumur og endurnýjar sig. Vísindamenn telja að ef gamlar frumur fái að safnast upp óáreittar valdi þær sjúkdómum, svo hreinsunarferlið er afar mikilvægt fyrir líkamann. Hormónið HGH (Human Growth Hormone) eykst einnig við föstu. HGH styður við vöðvauppbyggingu, því er mjög gott að lyfta lóðum eftir föstu.
Í dag er föstunámskeiðið mitt orðið eins konar andlegt ferðalag.
Föstur hafa legið undir gagnrýni upp á síðkastið, hver eru þín svör við því?
Gagnrýnin við föstur beinist að því að kortisol, stresshormón líkamans geti hækkað. Þegar fólk fer á hörkunni í föstur, er mjög strangt við sig og refsar sér, hækkar kortisólið. En ef þú gerir þetta á réttan hátt og með sjálfsmildi, þá gerist það ekki. Þetta snýst allt um hugarfar, ef þú ert með hausinn rétt stilltann þá líður þér vel og hækkunin á sér ekki stað.
Þú ert að velja að sleppa því að borða í ákveðin tíma, en það er ekki bannað. Hugsunin er að við erum að velja þetta til að líða betur, hreinsa líkamann og gefa honum hvíld.
Hungur er tilfinning sem líður hjá, en ef þú færð höfuðverk eða ógleði þá á að hlusta á líkamann og borða.
Hvernig byggir þú upp föstunámskeiðin þín?
Við byrjum á fjögurra daga undirbúningi þar sem við stillum hugann og hreinsum mataræðið. Þátttakendur eru hvattir til að borða hreinan, náttúrulegan mat – grænmeti, ávexti, kjöt, fisk og hreinar mjólkurvörur og sleppa unnum mat, sætindum, snakki og öðru. Síðan taka við 17 dagar sem samanstanda af mismunandi föstu tímabilum. Sólarhrings föstu, fimm daga með 800 kaloríum á dag og svo einum frjálsum degi. Svo endurtekur ferlið sig.
Margir koma aftur og aftur á námskeiðin og finnst þetta hjálpa sér að líða betur og ná sínum markmiðum.
Eru föstur fyrir alla, eða eru hópar sem ættu frekar að forðast hana?
Föstur eru ekki fyrir börn eða unglinga sem eru að vaxa, óléttar konur eða fólk sem hefur átt við átröskun að stríða. Þá er þetta ekki góð hugmynd.
Hvaða algengustu mistök sérðu fólk gera?
Algengustu mistökin eru að fara þetta á hörkunni, það virkar ekki. Það er betra að hætta en að gera þetta þannig. Ég veit að þetta er klisja en maður þarf að sýna sjálfum sér mildi. 
Hefurðu séð breytingar hjá sjálfri þér og öðrum eftir föstur?
Já, persónulega líður mér alltaf ótrúlega vel í föstum og eftir þær. Ég hef fundið mikinn mun á líkamanum. Þarmaflóran hefur breyst og batnað, hún virkaði aldrei almennilega þegar ég var yngri, en það hefur gjörbreyst og ég er einnig hætt að finna til í hnjánum, sem líklega skýrist af sjálfsáti frumna.
Einnig hefur fólk á námskeiðunum sagt frá því að höfuðverkir, sem það hefur glímt við alla ævi, hafi horfið eftir að það byrjaði að fasta reglulega. Margir sem fasta ná líka að léttast á heilbrigðan hátt og halda árangrinum betur. En eins og ég hef áður nefnt snýst þetta ekki eingöngu um að léttast og missa aukakíló, heldur fyrst og fremst um heilsu og vellíðan.
Persónulega finnst mér betra að vera ekki með aukakíló þar sem ég hreyfi mig mikið. Allt verður erfiðara ef maður er oft þungur. Ég er alla daga að gera upphífingar og armbeygjur og ég finn fyrir hverju kílói í því. Það er auðveldara að framkvæma þessar hreyfingar þegar maður er ekki með aukakíló.
Ég er samt sem áður ekki fullkomin og bæti stundum á mig kílóum í sumarfríinu og svona, en þá finnst mér líka kærkomið að taka föstutímabil.





















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst