Þekkingarsetur Vestmannaeyja hefur vakið athygli vítt um land fyrir áhugaverð verkefni sem það hefur komið í framkvæmd. Má þar m.a. nefna yfirgripsmiklar rannsóknir og veiðar á rauðátu og möguleikum á vinnslu hennar. Veiðar á bolfiski í gildrur sem önnur þekkingarsetur hafa sýnt áhuga á. Loks er það kafbátaverkefnið, samstarfsverkefni Bresku haffræðistofnunarinnar og Þekkingarsetursins. Hörður Baldvinsson er framkvæmdastjóri og tók hann nýlega við formennsku í samtökum þekkingarsetra á Íslandi.
„Þekkingarsetrin eru sex eða sjö og við höfum verið í samstarfi í þó nokkur ár. Samtökin voru nýstofnuð þegar ég tók við Þekkingarsetrinu okkar árið 2020. Vinnum mjög náið saman og nú erum við sameiginlega að ýta á háskólana að bjóða upp á fjarnám í hinum ýmsu greinum. Erum í samtali við Háskóla Íslands um að koma á fjarnámi í tæknifræði á Suðurlandi,“ segir Hörður en að því koma Háskólasamfélagið á Selfossi og Nýheimar á Hornafirði svo eitthvað sé nefnt.
„Það væri gríðarlega gott fyrir Eyjarnar ef við gætum boðið upp á nám á þessu sviði. Við erum með Framhaldsskóla sem stendur mjög framarlega í iðnmenntun,“ segir Hörður en skólinn hlaut í gær Íslensku menntaverðlaunin í flokknum framúrskarandi í iðn- og verkmenntun fyrir kennslu í málm- og vélstjórnargreinum. Í Vestmannaeyjum er öflugt atvinnulíf sem nýtir öflugan og flókinn búnað af nýjustu gerð á sjó og í landi.“
Hörður bendir á að öflugt atvinnulíf kalli á flókin tæknibúnað. „Í skipum, fiskiðnaði og nú í lagareldi með tilkomu Laxeyjar. Þurfum vel menntað og hæft fólk til að halda þessum búnaði gangandi. Hér erum við með fullt af einstaklingum sem myndu nýta þetta tækifæri. Hentar vel fólki með fjölskyldu og öðrum sem eiga ekki auðvelt með að fara til Reykjavíkur nema að flytja búferlum. Mest af náminu færi fram hér og lotur í Reykjavík.“
Hörður segir samstarf setranna vaxa með hverju ári. Ef eitt er að vinna að verkefni sem annað sýnir áhuga er samvinna alltaf í boði. Nefnir hann gildruveiðarnar í sumar sem dæmi. „Við erum með fimm ára leyfi til gildruveiða og setur á Norðurlandi vestra, við Húnaflóa hafa áhuga á að læra af okkur. Þeim er velkomið að sjá hvað við erum að gera og aðlaga að aðstæðum hjá sér. Það sem gengur vel hér getur hentað annars staðar og þá deilum við upplýsingum. Hefur það gengið mjög vel hingað til,“ segir Hörður og bætir við að allt sé opið vanti fólk vinnuaðstöðu á ferðalögum um landið.
Framundan er að efla samstarfið. „Vonandi skilar það sér til íbúa á hverjum stað. Sérstaða okkar í Vestmannaeyjum er náin tengsl við sjávarútveg. Erum með tvo rannsóknarbáta og hefur fólk frá öðrum setrum komið hingað og nýtt sér bátana. Við erum líka meira með puttana í hverju verkefni. Förum með hvert verkefni eins langt og hægt er,“ segir Hörður og nefnir að rauðátuverkefnið er á lokastigi.
„Við erum komin með lýsi og mjöl unnið úr rauðátu í hendurnar. Allar veiðitölur liggja fyrir og niðurstöður um hvað hægt er að framleiða úr rauðátu. Þetta geta önnur setur nýtt sér ef þau vilja.
Kafbátaverkefnið, þar sem fjarstýrðum kafbát var siglt frá ströndum Íslands til Skotlands 2500 km leið á einni hleðslu vakti mikla athygli á því sem við erum að gera, hér á landi og erlendis. Allt skapar þetta vinnu. Það er okkar verk að skapa nýja möguleika og tækifæri. Með öflugu samstarfi verða möguleikarnir fleiri,“ sagði Hörður að endingu.





















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst
Ekki liggja fyrir nýjar mælingar
Hvað er sjóveiki?
Sjóveiki er misræmi milli skynfæra líkamans sem senda boð til heilans um hreyfingu – kyrrstöðu.
Þegar einstaklingur er úti á sjó þá nema skynjarar í vökvafylltum gangi í innra eyra hreyfingu og senda boð til heilans að einstaklingur sé á hreyfingu. Augun senda hins vegar boð til heilans um að viðkomandi sé kyrr. Heilinn á erfitt með að vinna úr þessum misvísandi og ósamræmdu upplýsingum og sendir skilaboð til magans um að tæma sig – þ.e. veldur uppköstum.
Einkenni sjóveiki eru þreyta, ógleði, svimi, svitakóf og uppköst.
Góð ráð til að hindra sjóveiki:
Lyf við sjóveiki þ.e. lyf sem slá á einkennin og fást án lyfseðils í apóteki.
Önnur ráð:
Hvar í skipinu er best að vera o.fl.
Þungun:
Þungaðar konur sem þjást af sjóveiki mega nota koffinátín í litlum skömmtum en best er að ráðfæra sig við lækni eða lyfjafræðing.
Þunguðum konum er ekki ráðlagt að nota engifer þar sem það er ekki staðfest hvort það geti haft skaðleg áhrif á fóstur.