Gabríel Leví Hermanns Oberman, nemandi í 10. bekk við Grunnskóla Vestmannaeyja, hlaut annað sætið í ljóðakeppni Mjólkursamsölunnar, Fernufluginu 2025, fyrir ljóð sitt „Hvað er að vera ég?“ þar sem hann setur sig í spor moldvörpunnar.
Keppnin, sem er ætluð nemendum í 8.–10. bekk, vekur ár hvert mikla athygli fyrir frumlega og hugmyndaríka texta ungra höfunda sem prýða mjólkurfernur MS. Alls bárust yfir 1.200 textar í ár og voru fimm þeirra verðlaunaðir. Fyrstu verðlaun hlaut Aron Elí Arnarsson úr Hagaskóla, en Gabríel fékk 200.000 króna peningaverðlaun fyrir sitt ljóð.
Í ljóði Gabríels lýsir moldvarpan ró sinni og tengslum við náttúruna:
„Ég sé ekki heiminn með augunum heldur finn hann með nefinu og klærnar mínar grafa stöðugt nýjar leiðir.
Dagarnir mínir eru dimmir en ekki daprir því þarna í moldinni er friður.“
Fernuflug er árleg samkeppni þar sem ungt fólk fær tækifæri til að láta rödd sína heyrast á mjólkurfernum landsmanna. Verkefnið er ætlað að efla skapandi skrif og áhuga ungmenna á íslenskum texta og ljóðlist.
Eyjafréttir óska Gabríel Leví innilega til hamingju með árangurinn. Ljóð Gabríels má lesa í heild sinni hér að neðan.
Hvað er að vera ég?
Að vera ég, moldvarpa, er að lifa lífinu neðanjarðar.
Ég finn mig best þar sem moldin er mjúk og rætur liggja í allar áttir.
Ég sé ekki heiminn með augunum heldur finn hann með nefinu og klærnar mínar grafa stöðugt nýjar leiðir.
Dagarnir mínir eru dimmir en ekki daprir því þarna í moldinni er friður.
Ég er ósýnileg flestum en hlutverk mitt er mikilvægt.
Ég næri jarðveginn, snerti rætur trjánna og hlusta á hljóð jarðarinnar.
Að vera ég er að tilheyra náttúrunni, hljóðlega en djúpt.



















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst