Vestmannaeyjabær hefur gert samstarfssamning við LifeLine Health um heilsufarsskoðanir og heilsueflingu fyrir starfsfólk bæjarins. Verkefnið fer af stað í næsta mánuði og er markmiðið að styðja við heilbrigði, vellíðan og forvarnir með faglegri og einstaklingsmiðaðri nálgun.
Verkefnið er í takt við mannauðsstefnu Vestmannaeyjabæjar þar sem lögð er rík áhersla á heilsueflingu, vellíðan og öryggi starfsmanna. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef bæjaryfirvalda.
LifeLine Health byggir þjónustu sína á fjórum grunnstoðum heilsu: hreyfingu, næringu, svefni og andlegri heilsu. Áhersla er lögð á persónulega nálgun, faglega ráðgjöf og heildræna sýn á heilsu einstaklinga. Að þjónustunni standa íslenskir læknar, þar á meðal Victor Guðmundsson, Eyjamaður og einn af stofnendum LifeLine Health.
Heilsufarsskoðanirnar eru hannaðar til að vera einfaldar, skilvirkar og aðgengilegar. Ferlið felur meðal annars í sér spurningalista um heilsu og lífsstíl, mælingar, blóðprufu samkvæmt nánara skipulagi og viðtal við lækni þar sem niðurstöður eru útskýrðar og settar fram persónulegar ráðleggingar. Þátttaka er valkvæð og full trúnaðarskylda gildir um allar heilsufarsupplýsingar.
Með samstarfinu stígur Vestmannaeyjabær markviss skref í átt að öflugri forvörnum, aukinni vellíðan og bættri heilsu starfsfólks til framtíðar. Samkvæmt upplýsingum sem fram koma á vef bæjaryfirvalda munu nánari upplýsingar um framkvæmdina berast starfsfólki í tölvupósti þegar nær dregur, en áformað er að hefja verkefnið á tveimur vinnustöðum.
Á fundi sem haldinn var nýverið með fulltrúum bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar, Victori Guðmundssyni lækni og Vignir barnalæknir, sem einnig hefur komið að uppbyggingu LifeLine Health, voru framtíðaráform þjónustunnar kynnt. Þá tóku Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, og Björn Skúlason einnig þátt í fundinum. Viðbrögð við verkefninu voru jákvæð og rík samstaða um mikilvægi þess að fjárfesta í heilsu og vellíðan starfsfólks, að því er fram kemur í tilkynningu bæjarins.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst