Salsagengi og „tvíbbar“ í vélarrúmi Gullbergs

Efni standa til þess að stigin séu spor í salsadansi í vélarrúmi Gullbergs VE-292 þegar þannig stendur á. Víst er að fá ef nokkur önnur skip í íslenska flotanum eru mönnuð til slíkra hluta.

Reyndar á það kannski við um allt Evrópska efnahagssvæðið og þótt víðar væri leitað að vandfundnir eru vélstjórar sem hafa tileinkað sér dans undir áhrifum menningar á Spáni, í  Karabíahafinu og Suður-Ameríku.

Gullberg er hins vegar ekkert venjulegt skip. Það er áhöfnin heldur ekki.

Þetta er annars inngangur að framhaldsfrásögn um hrókeringar í Vinnslustöðvarflotanum. Við höfum til að mynda fjallað áður á þessum vettvangi um að Örn Friðriksson, yfirvélstjóri á Kap VE-4, hafi fært sig síðastliðið sumar yfir á Hugin VE-55 og að Ólafur Már Harðarson hefði tekið við af Erni um stund en verið svo ráðinn yfirvélstjóri á Gullbergi.

Salsagengið saman komið á ný

Þá víkur sögunni að umfjöllunarefni dagsins, tvíburabræðrunum og vélstjórunum Halldóri Gústafi  og Theodóri Hrannari Guðmundssonum. Þeir störfuðu í vélarrúmi Kap, Theodór sem fyrsti vélstjóri en Halldór sem annar vélstjóri. Báðir færðust upp um þrep í ábyrgðarstiganum þegar Ólafur Már fór á Gullberg.

Svo var Kapinni lagt og nú eru tvíburarnir komnir í áhöfn Gullbergs og að sjálfsögðu í vélarrúmið þar, Theodór sem fyrsti vélstjóri og Halldór sem annar vélstjóri. Þar með hefur líka salsagengið sameinast að nýju í Gullbergi í enn stærra og dansvænna rými en var á Kap.

– Hvað er annars verið að þvæla hér aftur og fram um salsaspor og dansandi vélstjóra? spyr nú margur lesandinn, undrandi og óþolinmóður.

Hér er svarið.

Theodór:

„Ég var fyrst í afleysingatúr á Ísleifi VE á makrílveiðum 2017. Á árinu 2018 fór ég í afleysingatúr á Kap á kolmunna og var á dekki. Þá var ég hléi í námi í Vélskólanum í Reykjavík og fór svo aftur í skólann. Þá sótti ég námskeið í salsadansi og kynntist Óla Má, núverandi yfirvélstjóra á Gullbergi, og hitti hann líka í skólanum. Hann hefur dansað salsa á fullu gasi í mörg ár og er þar reynslubolti líka, ekkert síður en í vélfræðinni.

Við vinnum sem sagt saman og höfum líka dansað saman!

Eftir skólann fór ég í fast pláss á Kap sem fyrsti vélstjóri.“

­– Hvað með þig, Halldór, er salsadans líka í reynslubankanum þínum?     

Halldór:

„Nei, ég prófaði salsa en fann mig ekki þar. Ég er hins vegar nýbyrjaður í golfi og viðurkenni að vera kominn með golfbakteríu í kroppinn. Teddi bróðir hefur hins vegar spilað golf árum saman.“

Reykvíkingar með vestfirskar rætur

Halldór og Theódór eru fæddir og uppaldir Reykvíkingar en eiga ættir að rekja til Vestfjarða og voru oft þar vestra á sumrin. Faðir þeirra var áður á sjó á Reykhólum, Þingeyri og Ísafirði, meðal annars sem vélstjóri á Karlsey BA og Framnesi ÍS. Hann hætti sjómennsku þegar drengirnir voru barnungir.

Afi tvíburanna í föðurætt, Skúli Sigurðsson, var vélfræðingur hjá Eimskip og verkstjóri hjá Haraldi Böðvarssyni á Akranesi. Afi þeirra í móðurætt var Björn Elías Ingimarsson skipstjóri og útgerðarmaður. Hann var með Mími ÍS-30 og Finnbjörn ÍS-37.

Síðast en ekki síst ber að nefna til sögunnar langafann í móðurætt, Ingimar Finnbjörnsson skipstjóra og útgerðarmann. Sá var í hópi stofnenda Hraðfrystihússins í Hnífsdal sem síðar sameinaðist Gunnvöru og varð Hraðfrystihúsið Gunnvör – HG í Hnífsdal.

Af heimasíðu Vinnslustöðvarinnar – vsv.is þar sem nánar er fjallað við Halldór og Theódór.

Nýjustu fréttir

Minningar um gos – söngvar og sögur í Eldheimum
„Fínasti vertíðarfiskur”
Kallað eftir hugmyndum fyrir Goslokahátíð 2026
Ein ferð í Landeyjahöfn
Heilsurækt við Íþróttamiðstöðina boðin út á ný eftir kærumál
Góður mánudagur sem varð enn betri!
Fimm skip til loðnuleitar
Löndun Breka VE í Grundarfirði – flókið verkefni og fumlaus vinnubrögð
Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.