Runólfur Geir Benediktsson, forstöðumaður sjávarútvegsteymis Íslandsbanka

Sjávarútvegsskýrsla Íslandsbanka hefur verið gefin út síðan árið 2003 og ekki er breyting á því í ár. Skýrslan á að gefa bæði beinum og óbeinum hagsmunaaðilum heildstæða mynd af umfangi og áhrifum sjávarútvegarins á íslenskt samfélag. Útgáfufundur skýrslunnar var haldin í Vestmannaeyjum í gær. Fundurinn var í Eldheimum og þar var skýrslan kynnt og boðið var uppá hádegisverð að hætti Einsa Kalda.

Á fundinum kom meðal annars fram að Ísland situr í 17. sæti meðal stærstu fiskveiðiþjóða heims með um 1,3% hlutdeild á heimsvísu. Í Evrópu veiðir Ísland mest á eftir Rússlandi og Noregi. Frá ársbyrjun ársins 2017 hafa botnfiskafurðir hækkað mest allra sjávarafurða eða um 5,4%. Kemur það íslenskum sjávarútvegi sérlega vel enda mestu verðmæti greinarinnar fólgin í botnfiskafurðum. Þrátt fyrir aukið aflamagn minnkaði verðmæti aflans um 17% á árinu 2017 frá fyrra ári, m.a. vegna styrkingar krónunnar.

Þórdís Úlfarsdóttir útibústjóri Íslandsbanka í Vestmannaeyjum. Runólfur GeirBenediktsson
Forstöðumaður sjávarútvegsteymis
Íslandsbanka og Ólafur Hrafn Ólafsson, viðskiptastjóri hjá Íslandsbanka í upphafi fundar.

Á árinu 2017 lækkaði hlutfall botnfisks í heildarafla greinarinnar og var aflinn því verðminni á hvert tonn en á árinu 2016 þegar hlutfall botnfisks var rúmum 6 prósentustigum hærra. Þorskur var langverðmætasta útflutningstegundin á árinu 2017 líkt og áður en verðmæti tegundarinnar nam 84 mö.kr. eða um 42% af heildarútflutningsverðmæti greinarinnar.
Horfur eru á 8% aukningu í aflamagni í ár. Árið 2019 eru hins vegar horfur á tæplega 2% samdrætti í aflamagni. Kemur það til af verulegum samdrætti í aflaheimildum til veiða á uppsjávartegundum á borð við makríl, loðnu og kolmunna.
Ferskar afurðir drógust saman um þriðjung í útfluttu magni frá árinu 2000 en útflutningsverðmæti afurðanna jókst um 82% yfir sama tímabil. Hefur verðmæti ferskra sjávarafurða á hvert tonn því aukist umtalsvert frá árinu 2000.
Hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja hefur rúmlega helmingast á árinu 2017 frá fyrra ári. Lægri tekjur af reglulegri starfsemi og minni gengishagnaður skýra samdrátt í hagnaði að mestu leyti.

Hægt er að lesa skýrsluna í heild sinni hérna.