Starfsfólk í saltfiskvinnslu VSV pakkaði 54 tonnum af afurðum síðastliðinn laugardag, 28. mars,  og bætti þar með met frá því í fyrri viku sem greint var frá á vef Vinnslustöðvarinnar.
Ekki nóg með það. Í gær (mánudag) voru söltuð niður liðlega 130 tonn af fiski í Vinnslustöðinni. Engin dæmi eru finnanleg um slíkt áður hjá fyrirtækinu.

Í orðsendingu til starfsfólks í dag segir framkvæmdastjórinn:
„Ég talaði við fyrrum starfsmenn okkar til að kanna hvort þeir vissu um meiri afköst í Vinnslustöðinni fyrir áratugum þegar netabátar voru 20-40 í Eyjum. Þeir voru sammála um að hér væri um met að ræða í sögulegu samhengi.

Kærar þakkir fyrir frammistöðuna, kæru starfsmenn.
Kveðja, Binni.“