Um helgina var í fyrsta sinn bjórhátíð haldin í Vestmannaeyjum og voru það félagarnir í The brothers brewery sem héldu hátíðina. Það voru íslensk og erlend brugghús sem tóku þátt í hátíðinni ásamt þremur veitigastöðum úr Vestmannaeyjum. Sá sem átti miða á hátíðina fékk þrjá matarmiða til að smakka allan matinn og svo var hægt að smakka einhverja 40 tegundir af bjór.
Jóhann Guðmundsson einn af eigendunum sagði í samtali við Eyjafréttir að þetta hafi verið algjörlega trufluð hátíð sem gekk eins og best getur. „Við erum í skýjununum yfir þessu þó að tapið hafi verið heldur meira en við gerðum ráð fyrir en við vissum að við myndum tapa á þessu og litum í raun aldrei á þetta sem eitthvað tap þar sem okkur finnst við vera að búa til viðburð sem skilar svo miklu meira til samfélagsins en tæplega milljón í tap á svona viðburði. Það eru annsi margir sem hefðu selt mun fleiri miða þegar að spáin var orðin góð en við vildum ekki eyðileggja upplifun þeirra sem höfðu nú þegar keypt miða með því að láta þá þurfa að standa í löngum biðröðum eftir bjór og mat sem svo hugsanlega væri búinn þegar að það kæmi loks að þér,“ sagði Jóhann.
Verður hátíðin haldin aftur á næsta ári? „Ef þú hefðir spurt mig á mánudaginn þegar að ég var að taka niður tjaldið eftir hátíðina þá hefði ég alltaf sagt að þetta yrði ekki árlegt, en við erum strax farnir í það að skoða möguleika í því hvernig við getum gert þetta enn betur á næsta ári og þá með aðeins minni kostnaði og minni vinnu fyrir okkur og allt það frábæra fólk sem að aðstoðaði okkur við að láta þetta verða að veruleika. Ég vill bara nota tækifærið og þakka öllum sjálfboðaliðinum sem að unnu á hátíðinni og á Ölstofunni á laugardaginn því án þessa frábæra fólks þá hefði þetta aldrei orðið eins flott og þetta var. Þið sem keyptuð svo miða, takk kærlega fyrir okkur þetta var truflað.“
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst