Sögusetrið 1627 í Vestmannaeyjum bauð að venju upp á dagskrá sem tengist Tyrkjaráninu þann 27. júlí 1627 á Bryggjunni í Sagnheimum síðasta laugardag. Í ár eru liðin 398 ár frá því að ræningjar frá Alsír komu til Vestmannaeyja þar sem þeir rændu, rupluðu, drápu 36 íbúa og tóku 242 manneskjur með sér á þrælamarkaði í Alsír.
Mæting var góð og áhugaverð dagskrá. Óskar Vignisson, frá Grindavík sýndi drög að kvikmynd sem Halldór B. Halldórsson tók þar sem sagan í Vestmannaeyjum er rakin. Áhugaverð nálgun á miklum atburðum og verður fróðlegt að sjá lokaútgáfuna. Þulur er Adam Nichols sem þekkir sögu Tyrkjaránsins flestum betur.
Karl Smári Hreinsson, skólastjóri og rithöfundur sagði frá þýðingum á Reisubók séra Ólafs Egilssonar á ýmsum tungumálum, t.d. ítölsku, hollensku og nú síðast á frönsku.
Ragnar Óskarsson, formaður Sögusetursins sagði að næsta stóra verkefnið vera alþjóðlega ráðstefnu um þessa miklu atburði á 400 ára afmælinu 2027. Er von á fjölda fræðimanna víða að úr heiminum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst