Bæjarráð Vestmannaeyja hefur samþykkt beiðni fjölskyldu- og fræðslusviðs um að bæta við 1,5 stöðugildum til félagsmiðstöðvarinnar vegna lengdrar viðveru fatlaðra barna og ungmenna eftir skóla. Þjónustan er ætluð börnum og ungmennum á aldrinum 10–18 ára og er liður í lögbundnu verkefni sveitarfélagsins.
Aukin eftirspurn eftir þjónustunni hefur gert það nauðsynlegt að festa hana í fast form, en hingað til hefur verkefnið verið leyst innan reksturs frístundar og/eða Heimaeyjar. Frá og með næsta ári verður ábyrgð og rekstur þjónustunnar undir félagsmiðstöðinni og fjölskyldu- og tómstundaráði.
Þessu tengt: Ný störf og aukin þjónusta koma inn í fjárhagsáætlun 2026
Þjónustan á sér lagastoð í 16. grein laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018, sem kveður á um skyldu sveitarfélaga til að bjóða fötluðum börnum og ungmennum upp á frístundaþjónustu eftir skóla.
Vestmannaeyjabær hefur fengið viðbótarframlag úr jöfnunarsjóði vegna sérþarfa fatlaðra nemenda í grunnskólum. Í ár nemur framlagið rúmum 27 milljónum króna. Kostnaður við nýju stöðugildin er áætlaður 12,6 milljónir króna á ári, þar af um 3 milljónir fyrir árið 2025. Bæjarráð samþykkti beiðnina á fundi sínum og fagnar því að hægt sé að efla þessa mikilvægu þjónustu.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst