Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja fjallaði á síðasta fundi sínum um tillögu að breyttu aðalskipulagi Vestmannaeyja 2015–2035 vegna fyrirhugaðra áforma um baðlón og hótel á Skanshöfða. Jafnframt var lögð fram tillaga að nýju deiliskipulagi fyrir Skans og Skanshöfða.
Skipulagsáformin voru auglýst samkvæmt skipulagslögum á tímabilinu 8. ágúst til 19. september 2025. Fram kemur í fundargerð að alls hafi borist sjö umsagnir vegna breytingar á aðalskipulagi og sjö umsagnir vegna deiliskipulags. Í fimm tilvikum var um sömu umsögn að ræða fyrir bæði skipulögin.
Ráðið samþykkti fyrir sitt leyti að staðfesta skipulagsáform vegna breytingar á aðalskipulagi Vestmannaeyja 2015–2035 og nýs deiliskipulags fyrir Skans og Skanshöfða, sem tengjast fyrirhugaðri uppbyggingu baðlóns og hótels á Skanshöfða. Málinu var að lokum vísað til bæjarstjórnar Vestmannaeyja til endanlegrar afgreiðslu.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst