Sýnir sig enn og aftur hvað Vestmannaeyingar taka vel á móti gestum sínum
„Það sem kom okkur á óvart á föstudagskvöldinu voru þessar miklu hviður. Spáin var ekki góð en við áttum ekki von á þessu ósköpum. Þegar ég kíkti á mælinn á Stórhöfða á vedur.is sýndi hann hviður upp í 30 metra en ég held því fram að þær hafi verið mun sterkari inni í Herjólfsdal um kvöldið og fram yfir 2 um nóttina. Hvað veldur veit ég ekki en þar hefur landslagið örugglega sitt að segja,“ segir Stefán Jónsson, yfirlögregluþjónn í Vestmannaeyjum þegar hann er beðinn um að lýsa aðstæðum á Þjóðhátíðinni þegar hvað mest gekk á, rok og úrhellis rigning. Einnig þeim erfiðleikum þegar síðasta ferð Herjólfs féll niður á laugardeginum.
Hann segir átökin í veðrinu hafi verið mikil og eðlilegt að fólk yrði skelkað en segir ekki hafa verið ástæða til að rýma Dalinn. „Við veltum því fyrir okkur hvort ætti að binda enda á dagskrána. Okkar mat var að þeir sem skemmtu sér á Brekkusviðinu væru í skjóli fyrir versta veðrinu. Hefðum við klippt á dagskrána hefði fólkið farið úr skjólinu eitthvað annað og hefði það verið betra? Það bjargaði líka miklu að fólk var á svæðinu og tókst sem betur fer að koma í veg fyrir verulegt tjón.“
Allir brugðust við
Stefán segir að margir hafi komið að verki, lögregla, gæslufólk, Björgunarfélag auk fólks frá ÍBV. „Aðgerðarstjórn var í húsi Björgunarfélagsins og við fundum að allir voru að vilja gerðir til að hjálpa. Kölluðum út stóra bíla, fengum tæki frá Golfklúbbnum og Bragi Magnússon hjá Laxey svaraði kallinu þegar við báðum þá um hjálp. Fundu til skotbómu lyftara og hjálma. Þetta var bara ekkert mál og fólk gekk í verkin. Gunnar Ingi, sem var með rútuferðir í Dalinn brást við þegar hann var beðinn um að opna rúturnar og koma fólkinu úr Dalnum án gjalds. Margir nýttu sér Herjólfshöllina sem alltaf kemur að góðum notum þegar á þarf að halda á Þjóðhátíð.“
Niðurstaða Stefáns er að brugðist hafi verið við aðstæðum eins vel og kostur var. „Við vorum í beinu sambandi við Veðurstofuna sem sagði að veðrið myndi ganga niður um þrjú leytið um nóttina. Það gerðist reyndar háfltíma fyrr. Þá tók við venjuleg Þjóðhátíð eins langt og það nær,“ segir Stefán og hlær.
Vandi þegar Herjólfsferð féll niður
„Þetta var þó ekki búið því mikill vandi skapaðist þegar Herjólfur felldi niður síðustu ferðina á laugardeginum. Fullt af túristum í bænum, KR liðið og áhangendur bættust þar við og enga gistingu að fá. KR-ingarnir fóru upp í Hamarsskóla og svo opnaði Íþróttamiðstöðin sal fyrir ferðamennina. Send var út tilkynningu til ferðafólks og annarra sem voru í vandræðum og þeim bent á að hafa samband við lögreglu þ.e.a.s þeim sem ekki voru komnir með gistipláss. Það komu ansi margir og þurfti að opna sal í íþróttahúsinu. Þetta var vont á þeim tíma þegar allt er uppbókað en það tókst að útvega fólkinu einhverja gistingu.“
Stefán segir engin alvarleg slys hafi komið inn á borð lögreglu en eðlilega sleppi ekki allir ómeiddir af útihátíð af þeirri stærðargráðu sem Þjóðhátíð er. „Það var einhver saumaskapur og tognanir en ekkert sem tengdist ofsa veðrinu að því við best vitum. Miðað við allt og allt erum við bara nokkuð sátt við Þjóðhátíðina 2025. Hvað margir voru í Dalnum veit ég ekki,“ segir Stefán en bendir að salan hafi verið svipuð og 2023.
Líða ekki eggvopn
Hann segir gleðiefni að enn eina Þjóðhátíðina varð lögreglan lítið vör við eggvopn sem eru þó vaxandi ógn hér á landi. „Við látum finna fyrir okkur og komum á framfæri að við líðum ekki eggvopn á Þjóðhátíð. Maður sem veittist að lögreglumanni notaði hvorki hnúajárn eða kylfu eins og mátti skilja á fréttum. Málið var, að þegar hann var handtekinn kom í ljós að hann var með þessi vopn á sér.“
„Heilt yfir eru þetta skemmtilegir krakkar sem hingað koma og mæta til að skemmta sér og öðrum. Lang flest til mikillar fyrirmyndar fyrir utan þessa fáu sem alltaf eru til vandræða. Velbúin og góðir regngallar orðnir tískufatnaður enda búum við á Íslandi. Það vita krakkarnir.“
Allir hjálpuðust að
Þegar Stefán er beðinn um að gefa Þjóðhátíðinni 2025 einkunn segir hann að fram undan sé að fara yfir og meta hvernig til tókst við oft mjög erfiðar aðstæður. „Auðvitað má skoða hvort við hefðum átt að opna Herjólfshöllina fyrr og fleiri atriði. En þegar reyndi á kerfið fannst mér við standa okkur vel. Fengum fullt af björgunarfélagsmönnum á föstudagskvöldið og það voru allir boðnir og búnir að hjálpa til. Heimafólk að þurrka föt af fólki og líka efnalaugin Straumur. Eyjablikk bjargaði fólki um tjaldhæla og svona má lengi telja. Það hjálpuðust allir að klára verkið. Ég er ekki ósáttur en við vorum að vinna við erfiðar aðstæður og mitt fólk stóð sig með miklum sóma. Öll hundblaut en það kvartaði engin. Gengu í verkin og hlógu að rigningunni,“ sagði Stefán að endingu.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst