ÍBV tók á móti Haukum nú í kvöld í öðrum leik liðanna í 8-liða úrslitum Olís-deildar karla.
Leikurinn var í járnum allt frá byrjun til enda og skiptust liðin á að leiða. Eyjamenn náðu fimm marka forrystu um miðbik fyrri hálfleiks, 9-5, en Haukar náðu að snúa því við og leiddu með einu marki, 18-19, þegar loks var gengið til leikhlés 50 mínútum frá því að leikurinn hófst. En stoppa þurfti leikinn á 15. mínútu meðan hlúað var að Degi Arnarsyni, leikmanni ÍBV, eftir að Darri Aronsson sló í andlit hans og hlaut réttilega að launum rautt spjald. Dagur jafnaði sig þó fljótlega og var aftur mættur í sóknina skömmu síðar.
Síðari hálfleikurinn var svo meira af því sama, gríðarlegri baráttu og hörku. Liðin skiptust á að leiða með einu til tveimur mörkum. Hákon Daði Styrmisson jafnaði leikinn 29-29 þegar tvær mínútur voru til leiksloka. Haukar töpuðu þá tvívegis boltanum og ÍBV náði tveggja marka forskoti. Lokatölur í kvöld 32-30 og jafnt í einvíginu 1-1. Það er því ljóst að leikið verður að minnsta kosti einn leikur enn í Eyjum en þrjá sigra þarf til að tryggja sér þátttöku í úrslita viðureigninni.
Mikil harka var í leiknum allan tímann sem minnti oft á tíðum á eitthvað allt annað en handbolta. Til marks um hörkuna í leiknum þá litu fjögur rauð spjöld litu dagsins ljós í kvöld tvö á hvort lið. Eyjamenn voru útaf í 12 mínútur og Haukar í 22.
Markahæstur í liði Eyjamanna var sem fyrr Hákon Daði Styrmisson með átta mörk þar af fjögur úr víti. Aðrir markaskorarar voru Gabríel Martinez – 6, Kristján Örn Kristjánsson – 5, Dagur Arnarsson – 5, Fannar Þór Friðgeirsson – 4, Sigurbergur Sveinsson – 2, Daníel Örn Griffin – 1 og Kári Kristján Kristjánsson – 1. Björn Viðar Björnsson varði fjórtán skot í marki ÍBV.
Næsta viðureign liðanna verður á heimavelli Hauka í Hafnafirði á sunnudaginn kl. 16.00.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst