Björgunarfélag Vestmannaeyja hefur ákveðið að hækka ekki verð á flugeldum milli ára. Að sögn Adólfs Þórssonar, umsjónarmanns flugeldasölu hjá félaginu, er ákvörðunin meðvituð og ætluð sem þakklætisvottur til bæjarbúa fyrir þann stuðning sem þeir hafa sýnt félaginu í gegnum árin.
Aðspurður hvernig flugeldasalan gangi í ár segir Adólf að salan fari jafnan rólega af stað, líkt og fyrri ár. „Mesti þunginn kemur alltaf á síðustu tveimur dögunum. Það er augljóst að fólk vill halda í hefðina og um leið leggja sitt af mörkum til félagsins. Við stöndum klár með okkar fólk á flugeldamarkaðnum svo allir fái eitthvað við sitt hæfi til að sprengja,“ segir hann.
Ákvörðunin um að halda verðinu óbreyttu var tekin með bæjarbúa í huga. Aðspurður um ástæðuna segir Adólf að félagið hafi viljað gera eitthvað sem skilaði sér beint til fólksins í bænum. „Bæjarbúar hafa staðið með okkur í gegnum árin – í raun frá 1918 – og við viljum sýna það í verki. Með því að halda verðinu óbreyttu viljum við segja: takk fyrir stuðninginn. Verðið í Eyjum er að mestu leyti undir eða sambærilegt því sem gerist á höfuðborgarsvæðinu.“
Stuðningur bæjarbúa skiptir starfsemi Björgunarfélagsins miklu máli. Aðspurður segir Adólf hann vera algjörlega lykilatriði. „Þetta er félag sem byggir á samstöðu og þátttöku sjálfboðaliða sem vilja aðstoða sitt nærsamfélag. Flugeldasalan er ein af mikilvægustu tekjuleiðunum okkar og styður beint við allt það öryggis- og björgunarstarf sem við sinnum allt árið.“
Tekjurnar af flugeldasölunni nýtast samkvæmt Adólfi meðal annars til viðhalds búnaðar, endurnýjunar tækja, þjálfunar og almenns reksturs félagsins. „Þetta er ekki bara eitthvað sem er gott að hafa – þetta er nauðsynlegt til þess að við getum brugðist hratt og örugglega við þegar á þarf að halda, bæði á sjó og á landi,“ segir hann.
Spurður hvort hann telji að það skipti fólk máli að vita að verð hækki ekki og að með því sé verið að þakka bæjarbúum, segir Adólf svo vera. „Í Eyjum hefur alltaf verið sterkur samstöðukraftur. Þegar fólk kaupir flugelda hjá BV er það í raun að styðja við sitt eigið öryggi og sitt samfélag.“
Að lokum vill Adólf senda bæjarbúum sérstakar þakkir. „Ég vil bara þakka innilega fyrir stuðninginn. Þetta félag hefur verið hluti af samfélaginu í yfir hundrað ár og það er vegna þess að Vestmannaeyingar hafa staðið með okkur. Við vonum að fólk komi, kíki við og finni að þetta er ekki bara flugeldasala, þetta er samstaða og þakklæti.“
29. desember: 13:00–22:00
30. desember: 10:00–22:00
31. desember: 09:00–16:00
Þrettándinn: 13:00–19:00




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst